Eiga fíklar rétt á framfærslu?

Heimilislausir deyja ungir. Þetta má vafalaust laga með því að banna fólki að vera heimilslaust og gera sjálfsvíg refsiverð.

Heimilisleysi getur verið val
Enginn á að þurfa að vera heimilslaus. Hinsvegar er til fólk sem kýs það. Hið opinbera á að bjóða upp á heilsugæslu og góða aðstoð við þá sem glíma við sjálfsmorðshugsanir en það er líka til fólk sem kýs að fyrirfara sér þótt það fái alla hugsanlega aðstoð. Sömuleiðis er til fólk sem kýs að dópa yfir sig þótt því standi til boða meðferð og stuðningur af öllum toga. Ég held að það sé rétt sem margir halda fram að í miklum minnihluta sé það meðvitað val að vera á götunni. Spurningin er hinsvegar hvernig eigi að taka á því fólki sem vill ekki vera á götunni en vill heldur ekki hætta að drekka og dópa og alls ekki leggja neitt af mörkum til samfélagsins. Á hið opinbera að útvega fólki frítt húsnæði, fæði og vímuefni? Eða á að setja skilyrði fyrir framfærslu?

Er hætta á að velferðarkerfið búi til aumingja?
Væri heppilegt að leyfa fólki að velja um að vera á fylliríi alla daga og fá frítt uppihald og þjónustu út á það að vera sjúklingar eða að gefa því kost á vinna við framleiðslu og þjónustu við aðra (t.d. umönnun við drykkjusjúklinga) með þeim kvöðum sem vinna hefur í för með sér þ.m.t. að borga skatta til að halda uppi fólki sem vill frekar vera á fylliríi verið á fylliríi alla daga? Eða er kannski lítil hætta á að velferðarkerfið sé misnotað að því marki að það réttlæti það að ógæfufólk sé sett út á gaddinn? Fjölgar rónum t.d. þegar gistiskýlum fyrir heimilislausa er komið upp? Ekkert bendir til að óttinn um refsingu hafi hindrað fólk í því að stúta sér. Ég efast um bann við því að rónast fækki rónum, gæti trúað að það geri þá bara ósýnilegri. Ég er hinsvegar í miklum vafa um hvort það að halda þeim uppi og gera þeim þetta líferni þar með auðveldara, sé líklegt til að draga úr fjölda drykkjumnanna eða auka hann.

Ég er nokkuð viss um að fáir taka beinlínis meðvitað ákvörðun um að gerast rónar. Ég er ekki eins viss um að þeir séu fáir sem álíta bætur og gistiskýli ásættanlegan valkost. Á Norðurlöndunu eiga bætur að duga fyrir leigu á félagsleguhúsnæði svo þeir sem eru á götunni velja væntanlega frekar að drekka en eiga heimili og ég held að almennt sé lítil stemning fyrir því að hækka bætur þannig að fólk geti leyft sér hvorttveggja. Ég hef líka sjálf kynnst fólki sem hefur verið á bótum árum saman án þess að eiga við neitt áfengisvandamál að stríða og finnst það eina sem er slæmt við það að bæturnar séu ekki nógu háar. Segist ekki sjá neinn mun á því að vera á bótum og listamannalaunum eða skólastyrk, það eigi bara hver og einn að fá að lifa því lífi sem hentar honum og sumum falli vel að vinna en öðrum að spila tölvuleiki eða verja miklum tíma í félagslegar þarfir sínar.

Eymd þeirra sem eru heimilislausir vegna óreglu vekur tvær spurningar:

1) Hverjum eiga skattgreiðendur að halda uppi, að hve miklu leyti og á hvaða forsendum? Ef ég vil frekar vera full allan daginn en að vinna, á ég þá heimtingu á því að aðrir sjái mér fyrir heimili út á það að ég sé veik? Og ef svo er, gildir það sama ef ég vil hanga á netinu allan daginn? Má ekki skilgreina það sem fíkn?

2) Ef skattgreiðendur eru ekki tilbúnir til að halda mér uppi svo ég get gert það sem mér bara sýnist og gera mér líka fært að halda heimili, er það þá mitt val að vera á götunni og nota bæturnar í eitthvað sem öðrum finnst rugl, eða á að banna mér það og skikka mig til að lifa lífi sem ég kýs ekki, vegna þess að enginn megi vera heimilislaus?

 

Umræður hér:

 

https://www.facebook.com/eva.hauksdottir.norn.is/posts/154093931360303

Share to Facebook