476 lík

Eitt af því sem hefur verið notað sem rök gegn því að Paul Rames fái hæli á Íslandi er að hann hafi áður sóst eftir því að fá að búa hérna. Á einhverju blogginu sá ég líka að ritanda fannst tortryggilegt að Atieno hefði sótt hér um dvalarleyfi á síðasta ári. Hún fékk það ekki en hinsvegar fékk hún dvalarleyfi í Svíþjóð, það segir kannski eitthvað um sveigjanleika útlendingastofnunar.

Ég gæti vel skilið að ítrekaðar tilraunir sama fólks til að fá dvalarleyfi hér þættu tortryggilegar, ef það byggi við öryggi og frið heima hjá sér og hefði sérstakan áhuga á íslenska bótakerfinu. Það er þó full ástæða til að ætla að Paul og Atieno hafi sótt hingað, vegna þess einmitt að ástandið í Kenía braust ekki út á einni nóttu í kjölfar kosninga, heldur hafa mannréttindabrot og skipulagt ofbeldi tíðkast þar lengi.

Á tímabilinu júní til október 2007 fundust 476 lík af fólki sem hafði verið tekið af lífi með byssukúlu. Hjá rúv er víst eitthvað um að menn kunni á google og var því einnig sagt frá þessum atburðum hér. Talið er víst að lögreglan hafi drepið allt þetta fólk og að það hafi verið svar þáverandi stórnvalda við ofbeldisverkum og morðum Mungiki hreyfingarinnar. Þetta telur lögreglan í Kenía óábyrgan fréttaflutning, samkvæmt rúv. Ómar Valdimarsson orðaði það þannig í kvöldfréttum stöðvar 2 á dögunum að tekist hefði að koma böndum á hreyfinguna. Hann gat þess hinsvegar ekki hvaða aðferðir þykja henta til þess arna í landinu kyrra.

Ég vona að það séu þessi dráp sem Paul Ramses átti við þegar hann nefndi 500 lík í viðtali við Kastljósið í síðustu viku. Það má þó skilja af viðtalinu að hann eigi við nýlegan líkfund. Ég vona að það sé misskilningur.

Það vekur mér talsverðan óhug að fréttir af þessum 476 líkum sem fundust á bilinu júní til október, komust ekki í hámæli á Vesturlöndum fyrr en í nóvember. Getur verið að fleiri lík hafi fundist og að lögreglan í Kenía telji vestrænar fréttastofur líklegar til að fjalla um um þau á jafn óábyrgan hátt og líkin sem fundust á síðasta ári?

Share to Facebook