Egill litli óþekki

Egill var ákaflega bráþroska en ódæll í meira lagi og á þessum tíma fengu óþæg börn hvorki greiningu né ritalín. Í dag yrði hann sennilega greindur með sértæka óþekktarröskun.

Egill ríður í Álftanes
Þegar Egill var 3ja vetra bauð Yngvar móðurafi hans Skalla-Grími og Beru til veislu en hann bjó að Álftanesi þar í grennd. Egill litli vildi fara með en faðir hans vildi það ekki og sagði að hann væri nógu erfiður ódrukkinn. Egill lét þó ekki stoppa sig, tók hest Gríms traustataki og reið á eftir þeim yfir mýrarnar. Hann rataði að vísu ekki en sá foreldra sína og fylgdarfólk langt fyrir framan sig þegar ekki bar fyrir holt og skóga og komst á leiðarenda.

bogga17

bogga17 Hér er vísan sem Egill á að hafa kveðið þriggja vetra í enskri þýðingu

Þegar þangað var komið kvað Egill vísu þar sem hann ber lof á Yngvar afa sinn og fram kemur að afi hans viti nú tæpast betra þriggja ára gamalt skáld. Mig grunar nú reyndar að hann hafi átt við að hann hafi þá haft þriggja ára reynslu af skáldskap og verið kannski 15 ára en ekki þriggja. Á íslensku hljóðar vísan svo:

Kominn emk til arna
Yngvars, þess’s beð lyngva,
hann vask fúss at finna,
fránþvengjar gefr drengjum;
mun eigi þú, þægir,
þrévetran mér betra,
ljósundinna landa
linns, óðar smið finna.

Þessi vísa er dróttkvæð og slíkar vísur voru ekki óskyldar gátum svo það er útilokað að skilja þær, fyrir fólk sem ekki kann skáldskaparmálið sem notað er. Merking vísunnar er:

Enn er ég kominn
heim til Yngvars,
sem gefur mönnum gull.
Ég var fús að finna hann.
Þú, örláti maður,
munt eigi finna
þrevetran ljóðasmið
betri en mig.

 

 

PNS0130448-Europe-Iceland-Reykjavik-Arni-Magnusson-Institute

Þessi mynd af Agli er úr 17. aldar handriti að Egilssögu
en sagan var fyrst skráð á 13. öld.

 

Fyrsta manndráp Egils
Önnur saga segir frá fyrsta manndrápi Egils litla en hann mun hafa verið á sjöunda ári þegar sá atburður varð. Hann var að spila ísknattleik og mótherji hans, 10-11 ára gamall drengur, Grímur að nafni, nýtti sér aflsmuni sína. Egill varð þá reiður og lamdi hann með knatttrénu en Grímur tók þá á honum og hótaði að meiða hann ef hann hegðaði sér ekki. Egill litli snáfaði burt en var ósáttur við þessi málalok svo hann náði sér í skeggexi, hljóp að Grími „og rak öxina í höfuð honum, svo að þegar stóð í heila“. Líklega er Egill sá yngsti í Íslandssögunni sem hefur framið morð að yfirlögðu ráði. Grímur var ekkert yfir sig hrifinn af því tiltæki en Bera, móðir hans taldi þetta benda til þess að hann væri efni í mikinn víking. Og þá kvað Egill vísuna sem við kunnum öll:

Þat mælti mín móðir,
at mér skyldi kaupa
fley ok fagrar árar
fara á brott með víkingum,
standa upp í stafni,
stýra dýrum knerri,
halda svá til hafnar,
höggva mann ok annan.

Hér að neðan er kvæðið með lagi sem mér finnst reyndar ósköp leiðinlegt.

Deila

Share to Facebook