Fáum vonandi fullvissu fljótlega

Bræður

Ég tók það skýrt fram í viðtali við 365 í dag að ég hefði trú á því að utanríkisráðuneytið væri að leggja sig fram um að hjálpa okkur þótt það hefði byrjað slælega, og mér finnst að það hefði mátt koma fram. Það hefur sýnt sig að í borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisis er „allt sem hægt er“ nokkuð teygjanlegt hugtak sem víkkar verulega þegar aðstandendur verða brjálaðir. Ég trúi því þó að ráðuneytið sé nú komið á rétta braut. Ég hélt í gær að það væru bara allir að fara í helgarfrí en hún Lára hjá Borgaraþjónustunni er búin að vera í stöðugu sambandi við mig í dag og hún er virkilega elskuleg.  Ég bind vonir við að fá fullvissu fljótlega.

Því miður vitum við sáralítið enn og reyndar öllu minna en við töldum okkur vita fyrir einni viku. Skiljanlega eru mjög margir að spyrja hvort eitthvað sé að frétta. Því miður er ekkert að frétta en mér finnst rétt að skýra stöðuna í stuttu máli.

Það sem við teljum hafið yfir vafa:

  • Við vitum að Tyrkir gerðu loftárás á þetta svæði þann 24. febrúar. Ef maður skoðar kortið og þysjar inn sjást mannvirki miðja vegu milli þorpanna Badina og Dumilya.
  • Sögum ber saman um að Haukur hafi verið á svæðinu og síðan hefur ekkert til hans spurst.
  • Kúrdar hafa ekki komist inn á svæðið til að sækja lík fallinna félaga.
  • Tyrkir hafa tekið stríðsfanga úr hópum Kúrda.
  • Kúrdar og Tyrkir hafa hirt lík andstæðinga sinna til þess að geta skipt við óvinaherinn.

Helstu vafamál:

  • Ég finn engar áreiðanlegar heimildir um að Tyrkir hafi verið með landhernað í nágrenni Badina þennan dag en samkvæmt Livemap og fólki sem var statt í Afrin voru FSA og ISIS liðar með fótgöngulið og bíla á svæðinu og FSA hefur í reynd farið með yfirráð yfir Badina og nágrenni frá 24. febrúar.
  • Okkar heimildamenn fullyrða að ef FSA eða ISIS hafa tekið lík eða stríðsfanga þá hafi þeir komið þeim í hendur Tyrkja. Það er ákveðinn léttir að eiga a.m.k. ekki von á því að sjá myndband af Hauki í höndum ISIS.
  • Sagt er að þrír menn hafi farið inn á svæðið á meðan loftsprengjum rigndi yfir það, til þess að sækja lík þriggja manna. Ég trúi því ekki. Ég held að þeir hafi ætlað að sækja særða menn.

Þeim sem telja að maður sem stofnar lífi sínu í hættu eigi engan rétt á því að ríkið láti sig hann nokkru varða er bent á að éta það sem úti frýs. Það er einfaldlega skylda ríkisins samkvæmt alþjóðalögum að rannsaka mannshvörf og vofveifleg mannslát. Mér finnst samt rétt að komi fram að það vorum við foreldrar hans Hauks og unnusta sem óskuðum eftir aðstoð Borgaraþjónustunnar við upplýsingaöflun. Haukur yrði áreiðanlega ekkert hrifinn ef hann vissi að íslensk stjórnvöld væru að spyrjast fyrir um hann í Tyrklandi. En jafnvel þótt ég gæti spurt hann álits, myndi ég ekki gera það í þetta sinn.

Deila færslunni

Share to Facebook