Rauði hringurinn sýnir staðinn þar sem Haukur féll
Þetta var erfiður dagur. Sendinefnd IFB kom til Glasgow. Systkini mín eru enn hjá mér og það er mér dýrmætara en ég átti von á.
Nefndin reyndist ekki hafa miklar upplýsingar fram yfir þær sem við höfum nú þegar en staðfesti staðsetninguna á árásinni. Haukur féll í skotárás úr lofti en þau gátu þó bætt því við að loftsprengjum var einnig varpað á svæðið sem er núna undir stjórn Tyrkja. Haukur féll þar ásamt tveimur öðrum eins og fram hefur komið. Þrír menn fóru síðar inn á svæðið til að reyna að ná í líkin. Þeir særðust og eru nú látnir og þegar búið að birta píslarvottarplaköt af þeim. Mér finnst það vera næg staðfesting á því að það sé nánast útilokað að Haukur sé á lífi.
Þau vita ekki hvort Tyrkirnir hafa varðveitt líkið eða hvort það er bara þarna í rústunum en staðfestu að ef Tyrkir væru með líkið væri ekki ólíklegt að Tyrkir og YPG muni skiptast á líkum. Það er útilokað að segja til um hvort við fáum líkið nokkurntíma en þau lofa því að við fáum dótið hans, segjast samt ekki hafa hugmynd um hvenær verði hægt að koma því til okkar.