Mun ritstjórnarstefna Sykurbergs hafa áhrif á bloggið?

Samkvæmt þessu ætlar FB að fara að takmarka hversu mikið við sjáum af efni frá fréttamiðlum. Það sama hlýtur þá að gilda um bloggfærslur sem við deilum.

Ég opnaði þessa Facebook-síðu af því að ég ætlaði að nota persónulega vegginn minn meira fyrir persónulegt efni. Hugmyndin var sú að deila efni af blogginu mínu á síðunni og vekja athygli á áhugaverðum bloggurum sem birta efni á eigin vegum en ekki stórum fjölmiðlum. Þær áætlanir hafa ekki gengið eftir því það sem ég deili á persónulega veggnum fær miklu meiri viðbrögð og dreifingu svo ég deili flestu þar líka. Auk þess eru virkir bloggarar sem nota eigin vefi fáir.

Kannski þessi fyrirhugaða ritstjórnarstefna Sykurbergs verði til þess að það þýði hvorki að deila pistlum og fréttaefni sérstökum þemasíðum né á persónulegum veggjum? Það verður þá kannski til þess að persónulegir vefir deyja endanlega.

Á hinn bóginn gæti þetta orðið til þess að fjölmiðlar og fyrirtæki þurfi að finna nýjar aðferðir til að deila efni og það gæti kannski líka haft áhrif á bloggheiminn. Eða þá að þegar Fésið verður ekki lengur fljótandi í fréttum og auglýsingum verði auðveldra að vekja athylgi á bloggfærslum. Það er auðvitað alltf hægt að birta langar færslur sem „notes“ á FB og þær týnast ekki eins auðveldlega og annað efni en það er bara svo miklu skemmtilegra að nota vef þar sem maður ræður útliti og getur haft almennilega reiðu á hlutunum.

Ég sakna bloggins. Fannst ég vera að heimsækja fólk með því að skoða blogg og nota tjásukerfin. Facebook meira eins og risastórt kaffihús.

Deila færslunni

Share to Facebook