Förum heim á morgun. Einari finnst alltaf jafn erfitt að kveðja Ísland og ég verð alltaf jafn glöð yfir því að komast heim.
Mér líður ekki illa á Íslandi enda myndi ég þá ekki leggja á mig að vera hér en mér finnst ég ekki hafa neitt hingað að sækja nema það að sjá vini og vandamenn. Ef ég gæti fengið fólk í heimsókn eftir pöntun hefði ég enga ástæðu til að koma hingað nokkurntíma.
Ég ber blendnar tilfinningar til Íslands. Þykir á vissan hátt vænt um það af því að ég á hér einhverskonar rætur, þekki söguna, menninguna og kannast við landslagið að einhverju leyti þótt mér sé reyndar alveg sama um nöfn og staðsetningu fjalla og fossa. Finnst náttúran falleg en hún er grimm og engin ástæða til að búa hér – það er allsstaðar hægt að finna fallega náttúru.
Ísland er æðislegt myndefni en að vera hér er eins og að borða soðið kjötfars. Ég á ekkert erfitt með að borða soðið kjötfars en ég hef heldur enga ánægju af því. Ég gæti samt alveg haft ánægju af félagsskap þeirra sem sætu með mér til borðs. Ef Einar gæti ekki hugsað sér lífið án þess að borða kjötfars í kvöldmat í þrjá mánuði samfleytt myndi ég gera það en ég yrði glöð þegar því tímabili lyki.