Það mjakast

Ég er ekkert óvön því að tilheyra minnihluta. Ég vil Ísland úr Nató það þykir kannski dálítið hallærislegt en maður er ekki álitnn beinlínis klikkaður út á það. Ég vil að flóttamenn njóti mannréttinda og hef verulegar áhyggjur af uppgangi nýnazisma, það þótti sérviskulegt fyrir 8 árum en í dag er ég sennilega í meirihluta.

Á sumum sviðum sé ég nokkuð þokast þótt ekki hafi orðið stökkbreytingar. Ég talaði fyrir þátttökulýðræði löngu áður en hugmyndin varð vinsæl og var fyrir vikið álitin draumóramanneskja og fáráður. Nú eru anarkískar hugmyndir eðlilegt innlegg í samfélagsumræðuna þótt fáir líti enn á anarkí sem raunhæfan valkost. Ég talaði fyrir beinum aðgerðum á meðan þær voru almennt álitnar til marks um geðsýki og aumingjaskap. Nú eru beinar aðgerðir taldar tæk baráttuaðferð. Líklega verða þær einhverntíma álitnar ekki aðeins tækar heldur sjálfsagðar.

Ég hef líka haft skoðanir sem voru álitnar meira en sérviska, eiginlega óskapleg öfgamennska en eru nú nær því að vera meinstrím. Ég vildi trúboð út úr skólunum og aðskilnað ríkis og kirkju mörgum árum áður en Vantrú var stofnuð, í dag eru það ekki lengur öfgar. Ég studdi frelsisbaráttu Palestínumanna á meðan það var almennt talið jafngilda gyðingahatri og stuðningi við hryðjuverk. Í dag styðjur stór hluti þjóðarinnar sjálfstætt ríki Palestínu.

Ég skrifaði um reynsluheim druslunnar löngu áður en íslenskar konur fóru fyrst í druslugöngu, það var flokkað sem athyglissýki. Í dag marsera konur hálfnaktar um götur og krefjast þess að fá að flagga sinni athyglissýki án þess að vera dregnar til ábyrgðar fyrir ofbeldisverk annarra gegn sér út á það. Ég sagði persónulegar sögur af valdatafli kynjanna, sálfræðihernaði og kynlífi sem stjórntæki og fjallaði um mörk kynlífs og ofbeldis á meðan allur áhugi á kynjamálum var flokkaður sem feminisi. Ég fékk iðulega vinsamlegar ábendingar um að þessi skrif væru sjálfri mér til niðurlægingar enda var enginn hópeflisrunksöfnuður sem jarmaði undir. Nú, nokkrum árum síðar tröllríða persónulegar nauðgunarsögur netinu.

Þótt maður heyri ekki sauðmúgann jarma merkir það ekki að maður sé öfgafullur, skrýtinn eða frumlegur. Venjulega hafa þúsundir hugsað það sama lengi. Stundum mjög lengi.

Deila færslunni

Share to Facebook