Sama konan missir fimm sinnum heimili sitt í fellibyl. Sama parið vinnur fyrsta vinning í lottóinu fjórum sinnum. Sömu hjónin eignast þrenna þríbura.
-Og þú sem ert stærðfræðingur, ætlar þú að segja mér að þetta séu tilviljanir? Hverjar eru líkurnar á því að svona hlutir gerist? segi ég.
-Nánast engar ef þú reiknar út líkurnar á því að það hendi tiltekinn einstakling en hinsvegar eru þó nokkrar líkur á að svona skrýtnir hlutir gerist í lífi einhverrar manneskju, einhversstaðar í heiminum á einhverju tímabili, svaraði Eynar.
Eynar kemst á flug þegar hann talar um líkindareikning. Segir að fyrir utan það sem gerist á rannsóknarstofu, þar sem hægt er að hafa fullkomna stjórn á öllum breytum, sé í raun ótrúlega fátt sem hægt sé að segja fyrir um með nokkurri vissu.
-Fólk ofmetur meðaltöl. Ef ég fæ hópi nemenda einfalt verkefni eins og að kasta krónu 200 sinnum og skrá niðurstöðurnar, þá sé ég hverjir hafa ekki haft fyrir því að kasta krónunni. Þeirra niðurstöður eru nefnilega of trúverðugar. Þeir reikna ekki með því að fá sömu hliðina upp oftar en 5-6 sinnum í röð, allavega finnst þeim ótrúlegt að það gerist mjög oft. Veruleikinn er hinsvegar sá að stundum lendir krónan svo oft á sömu hliðinni að maður trúir því varla þótt maður hafi kastað henni sjálfur.
Og allt í einu rann það upp fyrir mér. Öll þessi ár sem ég var endalaust að leita að ástinni, var ég í raun að svindla. Ég varð þreytt á að kasta krónunni og fá alltaf jafn ótrúverðuga niðurstöðu svo ég hætti að kasta, heldur skrifaði ég ástmenn og atvik inn í sápuóperu tilveru minnar. Ég bjó mér til karakter sem vissulega var byggður á ákveðinni hlið á sjálfri mér en hefði sennilega aldrei funkerað í raunveruleikanum.
-Já en þetta var ekkert eins og þú lýsir því, sagði Keli
-Það getur heldur ekki hafa verið eins og ég upplifði það. Mér fannst ég bara vera algjört fórnarlamb en maður er ekki óheppinn sex sinnum í röð, svo ég hlýt að hafa triggerað þessa uppákomu sjálf, sagði ég.
-Maður getur vel kastað teningi sex sinnum og fengið alltaf sömu niðurstöðuna, sagði Keli.
Ég trúði því ekki að lífið væri eins og teningakast, allt bara tómar tilviljanir, og ég gerði það sama og nemendur Einars; fabríkeraðri trúverðugri niðurstöðu í stað þess að prófa að kasta aftur.