Maður nokkur hafði á orði á snjáldrinu í morgun að bloggið mitt (pistillinn.is) væri eins og blóm í eyðimörkinni. Það þótti öðrum manni full væmin líking og sagði að það væri frekar eins og kaktusinn á marengstertunni. Ég er reyndar hrikalega væmin, dreg mörkin við fjólubláa glimmerengla, en verð að játa að ég hef töluverða samkennd með kaktusum á marengstertum. Auk þess þarf svona risastórt marengstertusamfélag kaktus til mótvægis við sykurfrauðið og rjómann. Því miður er ég samt óttalegt kaktuskríli eins og þetta á myndinni, lokað inni í lyklakippu.
Ég hef lítið sinnt sápunni undanfarið enda er líf mitt ein stór margensterta þessa dagana og mér þykja kaktusar frásagnarverðari en margenstertur. Hef því ekki litið hér inn lengi og fann fyrst núna áðan tjásu við síðustu færslu. Hún er frá karli sem bar það upp á mig að eiga það sameiginlegt með HKL að vera betra skáld en hugsuður. Það verður að teljast verulega hugguleg móðgun ekki síst í ljósi þess að afhendingin er afskaplega ómerkilegur bragarháttur. Hann taldi það reyndar lán í óláni að nú hefði ég Eynar til að hugsa fyrir mig. Það verður auðvitað að teljast töluverð lífsgæðaaukning. Þetta er þægilegt líf. Ég sé að um að skreyta marengsterturnar á meðan Eynar hugsar fyrir mig.
En nú hef ég ekki meira að segja kæra dagbók, svo ég ætla að gúlla í mig einni marengstertu og athuga hvort Eynar er búinn að afgreiða fyrir mig allar hugsanir sem ég þarf á að halda í dag. Það er ekki svo mikið verk að hann er venjulega búinn að því áður en hann vaknar.