Á Íslandi er nú stödd sænsk kona að nafni Pye Jakobsson. Hún er einn helsti talsmaður réttindabaráttu starfsfólks í kynlífsiðnaði og starfaði sjálf í þeim geira í mörg ár. Koma Pye til Íslands er samstarfsverkefni sænsku samtakanna Rose Alliance og Snarrótarinnar – samtaka um borgaraleg réttindi en tilefni heimsóknarinnar er sú ósvinna utanríkisráðuneytis Íslands, að standa í vegi fyrir því að starfsfólk í kynlífsþjónustu verði skilgreint sem sex workers í áliti sem unnið er að fyrir UNAIDS. Samtök á borð við Amnesty International og ILO (þ.e.International Labour Organization, alþjóðasamtök sem berjast fyrir réttindum verkafólks) eru fylgjandi því að hugtakið sex workers verði notað í umræddu áliti en íslenska utanríkisráðuneytið skipar okkur öllum sem Íslendingum í þann þrönga hóp sem leggst gegn því, sem eru nánar tiltekið Svíar og kaþólskar hórubjörgunarhreyfingar.
Eins og Kvennablaðið hefur áður greint frá rituðu samtökin Rose Alliance opið bréf til til Utanríksráðuneytisins þar sem skorað er á íslensk yfirvöld að taka þessa afstöðu til endurskoðunar. Markmiðið með heimsókn Pye er að fylgja áskoruninni eftir og reyna að fá yfirvöld og almenning til að hlusta á viðhorf og reynslu þeirra sem vinna við kynlífsþjónustu og krefjast þess að störf þeirra verði viðurkennd.
250 hreyfingar og skipulögð samtök hafa lýst stuðningi sínum við bréf Rose Alliance. Hreyfingar og samtök úr öllum heimshornum, ekki aðeins samtök kynlífsstarfsfólks heldur einnig hreyfingar sem vinna að kynfrelsi og mannréttindum almennt, sem og samtök sem vinna að heilbrigðismálum – ekki síst því markmiði að hefta útbreiðslu HIV veirunnar.
Maður hefði kannski haldið að það þættu tíðindi þegar utanríksráðherra verður fyrir slíkum þrýstingi. Ekki hefur þó helsti fréttaskýringaþáttur Ríkisútvarpsins, Kastljós, sýnt minnsta áhuga á því að ræða við Pye eða kynna efni áskorunarinnar á annan hátt, hvað þá að reyna að afla svara um það með hvaða rökum utanríkisráðuneytið telur sig þess umkomið að standa í vegi fyrir því að notast sé við orðalag sem helstu mannréttindasamtök heims nota og viðurkenna sem mikilvæga aðferð til að stuðla að mannréttindum. Sinnuleysi Kastljóssins væri kannski skiljanlegt ef umsjónarmenn þáttarins hefðu aldrei sýnt klám- og kynlífsiðnaði eða málefnum jaðarsettra hópa neinn áhuga en það hefur ekki reynst erfitt að finna tíma þegar ofstækisfullir dólgafeministar, hérlendir eða erlendir tjá sig um klám, vændi og mansal. Aldrei nokkurntíma eru klámpostular og talsmenn hórubjörgunarhreyfinga krafðir svara um vafasamar baráttuaðferðir sínar og falsaða tölfræði heldur iðulega boðið að nota Ríkisútvarpið til að reka einhliða áróður án þess að nokkur sé til andsvara.
Kastljósið ætlar nú sem endranær að taka fullan þátt í kerfisbundinni þöggun kynlífsþjóna og leggja þannig sitt af mörkum til áframhaldandi fordóma og fyrirlitningar í garð einu starfsstéttarinnar sem víðast hvar nýtur engra réttinda og eina minnihlutahópsins sem yfirvöld og samtök sem njóta opinberra fjárframlaga, hafa aldrei með í ráðum þegar málefni sem varða þann hóp eru til umræðu.
Nú hafa tólf erlendir gestir komið hingað til lands á vegum Snarrótarinnar, til þess að kynna hugmyndir um afglæpavæðingu, skaðaminnkun og fleira sem tengist mannréttindabaráttu samtakanna. Þess má geta að Kastljósið hefur aldrei sýnt áhuga á því að ræða við neinn þeirra.