Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna útskýrir kröfu lögreglunnar um að fá að bera rafbyssur í Kasljósinu þann 22. júní.
Rök Snorra eru annarsvegar þau að lögreglumenn vilji fá að bera rafbyssur og hinsvegar þau að brotum gegn valdstjórninni hafi fjölgað.
Samkvæmt þessu væri eðlilegt að spyrja bankamenn hvort þeir vilji láta afnema bann við innherjaviðskiptum og láta álit þeirra ráða. Ef kennurum dytti svo í hug að þeir ættu að fá að hýða óþæg börn væru það líka orðin rök fyrir því að taka upp hýðingar í skólum.
Spyrillinn spurði Snorra hvort fjölgun brota gegn valdstjórninni ætti sér skýringar í mótmælum síðustu ára. Hann kom sér hjá því að svara en sagði að um ofbeldisbrot og fyrirhugaðar líkamsárásir væri að ræða. Þetta er villandi í meira lagi, ef ekki hrein og klár lygi. Þegar mótmælendur veita andspyrnu við handtöku eða reyna að hindra handtöku, er það skoðað sem brot gegn valdstjórninni og frá árinu 2005 hefur allt logað í mótmælum og beinar aðgerðir verið áberandi. Það gæti því allt eins verið að stór hluti þessarar fjölgunar brota gegn valdstjórninni skýrist af afskiptum lögreglunnar af mótmælendum, en í mörgum tilvikum eru þau afskipti óþörf.
Ekki hefur verið sýnt fram á eitt einasta dæmi úr sögu íslensku lögreglunnar um að rafbyssa hefði getað komið í veg fyrir slys á fólki. Það eru hinsvegar til mörg dæmi um það frá öðrum ríkjum að lögreglan hafi beitt rafbyssum þegar engin ástæða var til þess og að rafbyssur hafi valdið alvarlegum slysum og jafnvel dauða.
Við höfum nákvæmlega enga ástæðu til þess að álíta íslenska lögreglumenn fullkomnari en aðra; þvert á móti hafa þeir margsinnis sýnt að þeir eru alveg jafn líklegir og annað fólk til að gera tæknileg mistök og fara offari í starfi. En Snorri hefur áður tekið að sér að afsaka fúsk og valdníðslu (t.d. í garðbekkjarmálinu, þar sem dómstólar komust reyndar að allt annarri niðurstöðu en Snorri) og honum verður sjálfsagt ekki skotaskuld úr að réttlæta það þegar einhver kollega hans beitir rafbyssu á sakleysingja sem hann hélt ranglega að væri vopnaður, skýtur á viðkvæma líkamshluta eða skilur vopnið eftir á glámbekk.