Kæra Anna Marsý
Fyrir tveimur árum hugsaði ég nákvæmlega það sama og þú, að það væri þörf fyrir karlréttindahreyfingu á Íslandi. Og karlréttindahreyfingar eru reyndar til amk í Bandaríkjunum og Kanada.
Þessar hreyfingar eru að því leyti góðar að þær hafa vakið athygli á karlhatri og mismunun gagnvart körlum. Þær ábendingar eiga fullan rétt á sér. Það er sjálfsagt að berjast fyrir foreldrajafnrétti og það er óþolandi hversu oft ofbeldi gagnvart körlum er afgreitt sem brandari. Mér þætti fengur í sterkri jafnréttishreyfingu sem liti brottfall pilta úr framhaldsnámi alvarlegum augum og þrýsti á um að tekið verði á aðstæðum sem ala af sér óreglu, félagslega örokru, heimilisleysi og afbrotaferil, sem er margfalt umfangsmeira vandamál meðal karla en kvenna.
En þegar ég fór að skoða málflutning maskúlínista sannfærðist ég um að karlréttindahreyfing sé ekki heppileg leið til að taka á misrétti gagnvart körlum. Karlréttindasamtök á borð við MRM (Men’s Rights Movement) eru nefnilega ekkert annað en negatíva af feministahreyfingunni. Rétt eins og feministahreyfingin gefur karlréttindahreyfingin sig út fyrir að vera ósköp falleg hreyfing hugsjónafólks sem vill bara jöfnuð og réttlæti fyrir alla. En þegar maður skyggnist dýpra sér maður að málflutningur margra þeirra sem kenna sig við karlréttindi einkennist af þeirri hugmynd að karlar séu hæfari og þar með merkilegri en konur. Sumir þessara manna eru helteknir af reiði og biturð í garð kvenna og útmála okkur sem frekjur, væluskjóður og lygara en fórnarlambsvælið í þeim er þó ekkert skárra en í svæsnustu dólgafeministum. Í einum af fyrirlestrum sínum talaði hin eldklára karlréttindakona Karen Straughan um að konur sem vildu vinna með MRM rækjust oft á „þann fjandskap og tortyggni gagnvart öllu með píku“ sem einkenni marga meðlimi hreyfingarinnar. Ég spyr ekkert að því hversu velkomnar konur eru ef jafnvel hörkutóli eins og henni ofbýður.
Þótt opinber stefna flestra karlréttindahópa sé á yfirborðinu afskaplega málefnaleg, er mikil hætta á því að sérstök karlréttindahreyfing geri það sama og kvenhyggjuhreyfingin; að stilla kynjunum upp sem óvinum sem þurfi að berjast um völd og gæði. Ég hef séð maskúlínistamyndband þar sem því er haldið fram að menntun stúlkna komi engum til góða nema þeim sjálfum en drengir séu hinsvegar líklegir til hverskyns dáða mannkyninu til heilla, því sé best að leggja alla áherslu á menntun drengja. Ég hef séð myndband þar sem konur eru gagnrýndar fyrir að vera körlum ekki nógu þakklátar fyrir þá framþróun sem þeir hafa staðið fyrir því konur hefðu aldrei afrekað slíkt sjálfar. Margar vefsíður þar sem því er haldið fram að 90% nauðganakæra séu falskar. Vefsíður þar sem því er haldið fram fullum fetum að líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi kvenna gegn körlum sé umfangsmikið vandamál og að karlmenn eigi almennt óskaplega bágt.
Það gladdi mig að sjá unga konu benda á að á sumum sviðum hallar á karla. En ég vona samt að frekar en að stofna karlréttindahreyfingu beri þín kynslóð gæfu til þess að láta af allri kynhyggju og skapa þess í stað samfélag þar sem kynferði hefur sem allra minnst áhrif á möguleika fólks á að gera það sem því sýnist. Samfélag þar sem konur og karlar eru samherjar en ekki fjandmenn. Það er nefnilega svo merkilegt að þegar hugsjónafólk tekur sig saman um eitthvert baráttumál eru það venjulega þeir öfgafyllstu og reiðustu sem leiða hópinn og móta stefnuna. Í stað þess að átta sig á því misrétti sem raunverulegir eða ímyndaðir andstæðingar þeirra eru beittir verða þeir helteknir af sínum eigin baráttumálum. Við sjáum út í hverskonar vitleysu kvenhyggjan er komin og ég held að sem samfélag verðum við ekkert betur sett með því að þurfa að slást við öfgarnar í hina áttina líka.