Gamalmennisraus hins fallna konungs hefði sennilega litla athygli fengið nema vegna þess að karlinn var dónalegur við konu.
Karlana í röðum VG og gamla Alþýðubandalagsins kallar ritstjórinn klókindamenn, gullkistuvörð, dráttarklár, leyniskjalaverði, samsærisbræður, og vísar til gamalla orða formannsins um Davíð sjálfan sem gungu og druslu.
Hann kallar forseta lýðveldisins að vísu ekki Óla grís svo sem venjan er (og Bónusgrísinn sjálfur sem og stuðningsmenn hans láta svo skynsamlega sem vind um eyrun þjóta) heldur lætur hann sér nægja að vísa til hans sem „glókolls“ og líkja honum við uppvakning eða draug.
Af einhverjum ástæðum vega orð uppgjafa valdakarls þyngra þegar hann líkir Katrínu við gluggaskraut en þegar hann, nú eða Steingrímur sjálfur, úthúðar körlum.
Þungvæg eru orð karla og ekki þarf valdakarl til þess að hlustað sé á móðganir í garð kvenna. Nú krefst ríkissaksóknari þyngingar á sex mánaða fangelsisdómi yfir bófa sem hrækti á dómara af „hinu kyninu“ og kallaði hana tussu. Það er væntanlega talið hafa skaddað æru dómarans, gott ef ekki sjálfsvirðingu hennar, að svo mikils metinn maður skuli hafa valið henni þetta orð. Mannorð dómarans lagast væntanlega stórum við að bófinn sitji í fangelsi. Það mun sannfæra alþjóð um að dómarinn sé ekki tussa en þó því aðeins að hann fái að dúsa inni lengur en hálft ár.
Auðvitað á bófi ekki að nota orðið „tussa“ í réttarsal. Og auðvitað á ritstjóri Morgunblaðisins ekki að kalla Katrínu Jakobsdóttur gluggaskraut. En er ekki óþarfa þjónkun við karlrembuna að veita henni slíka athygli?