Hugleikur Dagsson er skemmtilegur listamaður. Ég kaupi bækurnar hans handa fermingarbörnum. Og nei, ég hef ekki áhyggjur af því að ungviðið misskilji samfélagsádeilu Hugleiks og haldi að hann sé að mæla með fjöldamorðum og barnaníði.
Og Hugleikur er ekki bara góður listamaður. Hann er líka svo góður strákur. Það hefur hann sjálfur staðfest. Hulli er ekki douchebag. Hulli segir ekki fólki að hoppa upp í tussuna á sér. Svo er hann líka feministi og þar með góð fyrirmynd.
Ég þekki Hugleik ekki persónulega en ég get auðveldlega bætt við rökum fyrir því hvers vegna hann er góð fyrirmynd. Hugleikur er pólitískur. Hann safnar ekki vöðvum. Hann er ekki kjötaður í ræmur eða tanaður í drasl og ég er ekki einu sinni viss um að hann fari reglulega í klippingu. Hann er ekki eins og þessi leikfimigaur sem var dónalegur við feminista og drap Lúkas. Eða nei, hann drap ekki Lúkas en nauðgaði allavega stelpu. Eða nauðgaði henni hugsanlega ekki, var allavega ekki ákærður en er samt bara svo ógeðslegur karakter að hann gæti hafa nauðgað stelpu. Og drepið Lúkas. Nei, þannig er hann Hugleikur ekki, ekki hann Hulli OKKAR. Að vísu örlar á einhverjum áhyggjum af því hjá honum Hugleik að til séu unglingar sem séu þau fífl að fatta ekki djókinn, en það er ekki stórmál. Þeir sem skipta máli vita nefnilega að Hulli er með hjartað á réttum stað.
Ég hef engar áhyggjur af því að hinn svarti húmor Hugleiks sé skaðlegur. En þessi undarlega varnarræða manns sem hefur ekkert að verja vekur mann til umhugsunar. Kannski hefur Hugleikur orðið var við umræðu um það hversvegna svokallaðir öðlingar, þ.e. karlar sem hafa talað máli feminista, geta framleitt gróteskan húmor og klám án þess að vera sakaðir um kvenfyrirlitningu þegar lágmenningarliðið er umsvifalaust stimplað ógeð fyrir svipaða hluti. Það er nefnilega ekki bara útlitsdýrkunarógeðsspengillinn sem hefði getað drepið Lúkas og nauðgað stelpunni og kosið Sjálfstæðisflokkinn sem er rakkaður niður fyrir kvenfyrirlitningu, listamenn á borð við útgáfufélagið Baggalút hafa líka verið sakaðir um að hvetja til nauðgana.
Baggalútsmenn liggja þó ekki eins vel við höggi og Gillz. Þeir deila á neyslubrjálæðið, þjóðrembuna, spillinguna, forheimskunina og ýmis önnur samfélagsmein og njóta því vinsælda meðal vinstrisinna, allavega þeirra sem taka sjálfa sig ekki of hátíðlega til að þola að gert sé gys að þeim líka. Baggalúti er nefnilega ekkert heilagt og stundum er ekkert á hreinu hvort Bagglútungar eru frekar að gera grín að hægri eða vinstri mönnum, karlrembu eða feministum. Sjálf hallast ég að því að þeir séu fyrst og fremst að gera grín að lesandanum/áheyrandanum sem krefst merkingar og upplifir meiriháttar hugleik (eða mind fuck) þegar hann veit ekki hvar hann á að staðsetja þá.
Það er auðvelt að staðsetja gaurinn sem hefði getað drepið Lúkas og nauðgað stelpunni, kosið Sjálfstæðisflokkinn og sagt einhverjum að hoppa upp í lopahúfuna á sér. Hann verður annaðhvort afgreiddur sem ógeð eða tröll nema hvorttveggja sé.
Það er auðvelt að staðsetja Hugleik Dagsson. Við vitum að hann er góður strákur sem myndi aldrei drepa Lúkasinn, nauðga stelpunni, kjósa Sjálfstæðisflokkinn eða segja einhverjum að hoppa upp í lopahúfuna á sér. Hugleikur útskýrir jafnvel fyrir okkur hvernig túlka beri það sem hugsanlega gæti haft tvöfalda merkingu. Fyrir þá sem vilja hafa allt á hreinu er það þægilegt, en fyrir okkur hin sem fáum kikk út úr því að láta fokka í okkur, er eiginlega dálítið sorglegt að maður sem ber þetta stórkostlega nafn Hugleikur og hefur allt til að bera til að standa undir því nafni, skuli neita okkur um hugleikinn, mændfokkið sem hann gæti svo auðveldlega boðið upp á.
Það er ekki eins auðvelt að staðsetja Baggalút. Baggalútur hefur kannski ekki beinlínis drepið Lúkasinn og nauðgað stelpunni en hann gæti hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn og þótt hann dragi valdamenn sundur og saman í háði hefur hann líka potað í Saving Iceland, hernaðarandstæðinga og aðrar lopahúfur. Við vitum ekki almennilega hvað Baggalúti finnst um feminista og lopapeysuhippa og auk þess er Baggalútur ekki einn maður, það gæti þessvegna verið einn stóriðjusinni í hópnum og annar sem hatar Nató. Baggalútur er trickster, mændfokkari, hann leikur á huga okkar. Hann lætur ekki draga sig í dilk. Það er ekki hægt að afgreiða Baggalút sem tröll eða gróðamaskínu og við getum heldur ekki treyst því að hann beini ekki spjótum sínum að grasrótarhreyfingum.
Sá sem ætlar að lifa í samfélagi verður aldrei svo frjáls að hann geti leyft sér að láta allt flakka og það er yndisleg sjálfspíning að horfast í augu við það hverja maður forðast að styggja með gríni eða gagnrýni. Gæti Hugleikur gert grín að feminisma? Nei hann gæti það ekki þótt hann vildi. Feministagrín yrði annaðhvort túlkað sem paródía eða þá að hann yrði álitinn svikari og myndi missa stuðning mikilvægs aðdáendahóps. Hugleikur getur ekki gagnrýnt femnista, ekki frekar en Gillz getur leyft sér að senda einn grjótharðan í ósmurt Stórveldið. Gilli og Hulli eiga nefnilega fleira sameiginlegt en það að hafa ósmekklegan húmor og hafa ekki drepið Lúkas, þeir eiga það sameiginlegt að hafa á sér ákveðna merkimiða sem setja þeim takmörk. Gillz er háður þeim fyrirtækjum sem markaðssetja hann. Hugleikur hefur sjálfviljugur gengist undir kennivald kvenhyggjunnar og finnur sig knúinn til að ítreka hollustu sína við hana alveg sérstaklega.
Baggalútur getur potað í alla. Stóriðjusinna, Saving Iceland og allt þar á milli. Baggalútur þarf ekki að gefa okkur skýr skilaboð um það hvort hann sé frekar að grínast með karlrembu eða stríða kjeddlingum og ásakanir um kvenhatur hrynja af Baggalúti eins og rök af feminista. Baggalútur er hvorki ómarktækt tröll né hápólitíkskur grínlistahópur; hann er laus við merkimiða og getur því grínast með það sem honum bara sýnist. Slíkur hópur býður upp á umræðu sem gæti verið áhugaverð en deyr fljótt í samfélagi þar sem fólk tekur afstöðu með læk-hnappnum á facebook frekar en heilanum í sér.
Það er auðvelt að gagnrýna Gillz því hann er í vonda liðinu. Þessu sem drap Lúkas og nauðgaði stelpunni. Hugleikur Dagsson þarf ekki að óttast ósanngjarna gagnrýni af því að hann er í réttu liði með lopahúfum, öðlingum og öllum pakkanum. Baggalútur þarf ekki að óttast ósanngjarna gagnrýni af því að það er alltaf hægt að benda á að sá sem setur hana fram sé það fífl að fatta ekki djókinn.
Og það er góður djókur. Það er hugleikur, og hugleikur er verulega góður djókur.