Kyn & klám

Við skulum ekki gera lítið úr því

Vissir þú:

-Að 23,5% íslenskra barna verða fyrir því að umgengni þeirra við annað foreldri eða bæði er tálmað um lengri eða skemmri tíma?

-Að 42% barna innflytjenda verða fyrir einelti í grunnskóla?

-Að 5,7% barna í 8. bekk hafa prófað kannabisefni?

-Að 25,8% barna foreldra sem þiggja framfærslustyrk sveitarfélaga eru haldin átröskun og/eða etja við vímuefnavanda?

-Að 74% fullorðinna sem greinast með athyglisbrest hafa íhugað sjálfsmorð?

-Að 57% kennara hafa grátið undan nemendum sínum?

-Að 31% karlmanna fá einhverntíma eftir 18 ára aldur áverka eftir líkamsárás?

Nei þú vissir það ekki. Enda er þetta alls ekki satt, eða ef svo er þá er það ótrúleg tilviljun þar sem þessar tölur eru úr lausu lofti gripnar.

En þetta eru allt saman slæm vandamál ekki satt? Eitt barn sem verður fyrir umgengnistálmun er einu of mikið.  Ein líkamsárás er einni of mikið. Og þessvegna er allt í lagi að ljúga upp einhverri vitleysu um tíðni þessara vandamála, af því að það er svo göfugt markmið að vekja athygli á þeim og það má ekki gera lítið úr þeim með því að heimta að rétt sé farið með staðreyndir og að eitthvað meira en ágiskun sé á bak við tölfræðina. – Eða ekki.

Engri heilvita manneskju dettur í hug að með því að biðja um heimildir fyrir því að svo og svo hátt hlutfall karla verði fyrir líkamsárás, eða gagnrýna óvönduð gögn sem lögð eru fram, sé sá sem það gerir þar með að leggja blessun sína yfir óumbeðnar barsmíðar eða að afneita því að til séu menn sem ganga um og berja mann og annan. En biðji maður um heimildir fyrir fullyrðingum um að ofbeldi gegn konum sé mjög algengt, að réttarkerfið hygli nauðgurum eða að kerfisbundin mismunun eigi sér stað á vinnumarkaði, getur maður reiknað með því að einhver mannvitsbrekkan ásaki mann um að vera fylgjandi kvennakúgun og kynferðisofbeldi, eða í skársta falli að maður afneiti tilvist þess.

Getur einhver útskýrt fyrir mér hversvegna það telst nánast dónalegt að fara fram á að umfjöllun um óréttlæti og ofbeldi gagnvart konum sé heiðarleg og til þess fallin að gefa rétta mynd af ástandinu?

Eva Hauksdóttir

Recent Posts

Stefna HÍ

einar-stefna-hi.pdf

54 ár ago

Hvað gerðist á jóladag?

Helgisagan um fæðingu Jesú er á þessa leið: Ágústus keisari vill taka manntal og Jósef…

54 ár ago

Fréttir vikunnar – KSÍ skýrslan og ritstuldur Seðlabankastjóra

Ég var beðin um stutt fréttarant fyrir Lífið á Fréttablaðinu í dag. Þetta hef ég…

54 ár ago

Þegar málshættir afbakast

Gefum okkur að "rétt mál" sé það sem málsamfélagið kemur sér saman um. Látum andartak…

54 ár ago

Endurhæfing Skúla Gunnlaugssonar

Sumarið 2020 var þáverandi yfirlæknir Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, Skúli Tómas Gunnlaugsson, sviptur starfsleyfi vegna margháttaðra afglapa…

54 ár ago

Píkubollar

Margur karlinn er svo heillaður af dindlinum á sér að hann finnur sig knúinn til…

54 ár ago