Jafnréttisnefnd fór á límingunum út af þessari mynd sem ku víst gera lítið úr konum. Ég hef ekki lesið auglýsingatextann, veit ekki hvað er verið að auglýsa fyrir utan það sem kemur fram á vefsíðu DV að auglýsingin sé frá félagi nema í lyfjafræði.

Það er ekki sérlega trúverðugt þegar fólk segist ekki sjá neitt ögrandi eða kynferðislegt við myndina. Ég efast um að lyfjafræðingar mæti almennt í vinnuna með sýnileg, rauð sokkabönd og rauðum nærbuxum undir píkusíðum slopp. „Ögrandi stelling“ finnst mér aftur á móti full langsótt. Getur kynþokkafull kona með rauð sokkabönd yfirhöfuð fundið sér einhverja stellingu sem ekki er annaðhvort ögrandi eða niðurlægjandi? Og afhverju eru konur sem nýta sér kynþokka sinn til að hafa áhrif á aðra og komast þangað sem þær ætla sér, ómerkilegri en þeir sem nota tengsl, peninga eða stöðu í sama tilgangi?

Hvað segir myndin annars, svona þegar maður þekkir ekki textann sem væntanlega fylgir henni? Segir hún:

-Hæ strákar, það vantar fleiri karlmenn í lyfjafræði. Hér er allt fullt af lausgyrtum dræsum svo ef þú skráir þig í námið, geturðu örugglega fengið frjáls afnot af allavega einni.

Eða:

-Þótt þú sért drusla þá er það engin afsökun fyrir að fara ekki í metnaðarfullt nám.

Eða:

-Lyfjafræðinemar hvetja til lauslætis og glyðrugangs við öll tækifæri.

Eða:

-Við vitum að fallegar konur geta haft karlmenn í vasanum en góð menntun gerir þig ennþá sterkari.

Eða kannski:

-Hæ þú klára, flotta stelpa sem hyggur á framhaldsnám; það er misskilningur að konur í raungreinum séu upp til hópa „nörd“ sem kunna ekki að velja sér gleraugu og finnst bækur um hornaföll skemmtilegri félagsskapur en karlmenn.
Mig langar að sjá nákvæmlega hvað það er sem jafnréttisnefnd las úr þessari mynd.
Og nú ætla ég að reyna að finna textann sem fylgdi henni og komast að því hvað lyfjafræðinemar voru að spá.