Arngrímur Vídalín er einn af mínum uppáhalds pennum. Í þessari grein er samt eitt sem kemur mér spánskt fyrir sjónir, þ.e. túlkun hans á hugtakinu fórnarlambsfeminismi.
Vitanlega eru þeir til sem nota þetta orð algerlega hugsunarlaust í þeim eina tilgangi að koma óorði á feminista, slengja því fram hvenær sem meiri athygli er beint að vandamálum kvenna en karla. Það er bjánaleg notkun því fórnarlamb er ekki sá sem hefur áhuga á sínum eigin hagsmunamálum, heldur sá sem hefur ekki raunhæft tækifæri til að brjótast undan ofbeldi og kúgun.
Til eru feministar virðast álíta að öll vandamál kvenna og öll ósanngirni í okkar garð sé úthugsað plott feðraveldisins til að halda okkur niðri, að konur séu í raun og sannleika í mjög erfiðri aðstöðu til að hafa áhrif á samfélagið og vinna að hugsjónum sínum og hagsmunum. Ég kalla fólk sem hefur tileinkað sér þetta viðhorf fórnarlambsfeminista.
Dæmi um fórnarlambsfeminisma er sú kenning að ástæðan fyrir því að konur tjá sig minna í fjölmiðlum en karlar sé sú að við höfum verra aðgengi að fjölmiðlum og að fjömiðlafólk leiti sjaldan álits kvenna.
Ef þetta væri rétt, hlytu konur að hafa ruðst út á hinn pólitíska ritvöll þegar fjölmiðlar fóru að bjóða upp á vistun vefbóka og grasrótarhreyfingar stofnuðu pólitísk vefrit. Staðreyndin er hinsvegar sú að konur eiga mjög lágt hlutfall þeirra skrifa um pólitík og samfélagsmál sem birt eru á opnum vefsvæðum. Við getum tekið Smugubloggið sem dæmi. Þar er hátt hlutfall kvenna skráð sem bloggarar, lítur afskaplega jafnréttislega út á yfirborðinu en hverjir eru það sem skrifa?
Á þeirri stundu sem þetta er ritað. lítur listinn svona út (ég tók tvær síður)
Arngrímur Vídalín (2 greinar)
Úlfar Þormóðsson (3 greinar)
Magnús Sveinn Helgason (5 greinar)
Kolbeinn Stefánsson (3 greinar)
Ingimar Karl Helgason (6 greinar)
Þráinn Bertelsson
Eiríkur Örn Norðdal (4 greinar)
Björn Valur Gíslason (4 greinar)
Ónafngreindur höfundur
Atli Thor Fanndal (2 greinar)
Drífa Snædal (3 greinar)
Hilmar Magnússon (3 greinar)
Edward Huibjens
Álfheiður Ingadóttir
Elías Jón
Arndís Soffía Sigurðardóttir
Fórnarlambsfeminismi er svo sannarlega til og hann hjálpar jafnréttisbaráttunni ekki neitt. Hann birtist t.a.m. í því viðhorfi að konur beri enga ábyrgð á þessum hlutföllum þeirra sem leggja eitthvað til samfélagsumræðunnar. Hann birtist í þeirri goðsögn að þátttökuleysi kvenna í stjórnmálum stafi af því að þeim sé markvisst haldið niðri. Hann fríar konur ábyrgð á afskiptaleysi sínu og býr þeim notaflegt fleti í hlutverki hins óvirka áhorfanda. Þolandans sem hefur bara enga möguleika á að láta til sín taka af því að feðraveldið er svo ógurlega yfirgangssamt. Hann birtist í því að í stað þess að láta til skarar skríða, ýta þær ábyrgðinni yfir á karlmenn, ef ekki með því að höfða til þess hvað þeir séu nú stórir, sterkir, ríkir og voldugir, þá bara með því að kalla þá Öðlinga.
Og kannski er rangt að kalla þetta fórnarlambsfeminisma. Kannski ættum við frekar að kalla það gargandi snilld, konur sem hafa lag á því að láta aðra um skítverk á borð við það að stjórna heiminum. Kannski eru þær þrátt fyrir allt engin fórnarlömb, heldur una því ágætlega að láta naglalakkið þorna á meðan karlarnir pikka á lyklaborðið. Kannski er það eitthvað svoleiðis sem er að gerast þegar jafnvel skrif um feminisma teljast ekki lengur kvenmannsverk.