Ég er löngu búin að koma mér upp krónisku ofnæmi gegn því­ viðhorfi að löngun einhleypra til að verða sér úti um maka eigi að vera feimnismál. Vitanlega eru þeir til sem kjósa að vera einir en ég hef enga trú á því að allir sem búa einir geri það af því að þeim finnist það gaman. Það er allavega mjög skrýtið hve oft fólk segist vera hæstánægt með að búa eitt en er svo komið í sambúð mánuði síðar.

Hin örvæntingarfulla kona

Ef kona lýsir yfir löngun til að eignast maka, ég tala nú ekki um ef hún auglýsir eða sýnir á annan hátt viðleitni til að verða sér úti um einn slíkan, þá er það túlkað sem „örvænting“ og þykir ekki par kúlt. Sama fólkið og skammar mig fyrir að vera örvæntingarfull, af því að ég verð eðlilega einmana þegar mig skortir félagsskap, tilfinningatengsl og kynlíf, hefur samt fulla samúð með einmana sjómannsfrúm. Þær eru einmana af því að þær eiga rétt á nærveru, ástúð og samábyrgð makans. Ég á hins vegar að vera töff, væntanlega af því að ég hef ekki áunnið mér þennan rétt með því að sjá til þess að sá eini sanni verði ástfanginn af mér.

Sama fólkið og finnst það bera vott um veiklyndi að fara á stúfana gagngert til að leita uppi heppilegan maka, fer svo sjálft á fullt að leita sér að húsnæði, þremur mánuðum áður en leigusamningurinn rennur út.

Hættu bara að leita og þá kemur hann

Ég hef aldrei skilið hvernig fólk kemst að þeirri niðurstöðu að draumaprinsinn muni birtast þegar ég hætti að leita. (Þess má geta að hann hefur hreint ekki rekið á fjörur mínar þau tímabil sem ég hef ekki verið í slíkum hugleiðingum.) Enginn hefur nokkurntíma sagt mér að ég fái góða vinnu eða gott húsnæði þegar ég hætti að leita að því, eða að ég kynnist helst skemmtilegu fólki með því að forðast leikfélög, sundlaugar, partý, menningarsamkomur og annan vettvang þar sem fólk kemur saman til að skemmta sér.

Leitið og þér munuð finna, er hið almenna viðhorf en ef maður er í makaleit eiga allt önnur lögmál að gilda. Kona sem er á lausu gegn vilja sínum, má ekki undir nokkrum kringumstæðum viðurkenna eða sýna þess merki að hún sé einmana eða kynferðislega ófullnægð, hvað þá að hún sé jafnvel til í skyndikynni. Hún má ekki sýna karlmönnum of mikinn áhuga, því það á að hrekja þá í burtu, ýmist vegna þess að þeir óttist skuldbindingar eða af því að það sé í andstöðu við veiðimannseðli þeirra að þurfa ekki að hafa frumkvæðið. Hér er átt við hið villta veiðimannseðli mömmudrengja sem aldrei hafa skotið rjúpu eða veitt lax. Hún á meira að segja að vera ánægð með aðstæður sínar af því að það er óraunhæft að krefjast þess að aðrir geri hana hamingjusama, hún á að finna sína hamingju sjálf.

Hamingjan er háð aðstæðum

Hvílíkt bull. Auðvitað gerir annað fólk mann hamingjusaman. Peningar líka. Hvorki félagsskapur né efnisleg gæði geta upprætt allar þær sorgir sem herja á mannssálina og það er ósanngjarnt að ætla öðrum að leysa vandamál sem eru manns eigin. Samt sem áður eru efnislegt og tilfinningalegt öryggi og samfélag við aðrar mannverur nokkrar af mikilvægustu forsendum þess að maður gleðjist og sá sem lifir gleðisnauðu lífi getur ekki tekist á við óhamingjuna sem fylgir því að vera manneskja.

Ég hef aldrei, ég endutek aldrei, fengið neinn hljómgrunn þegar ég hef lýst þessum skoðunum mínum. Allt á þetta að benda til „örvæntingar“, lélegrar sjálfsmyndar, þess að ég sé ekki sjálfri mér næg, vandlætis og kröfuhörku (af því að ég vil ekki sofa hjá heimskingjum og gamalmennum og get ekki hugsað mér að búa með óvirkum alka eða manni sem er atvinnulaus að eðlisfari) og umfram allt óhóflegrar kynhvatar. Giftar konur hafa hvað eftir annað spurt mig (flissandi eins og smástelpur) af hverju ég fái mér ekki bara titrara. Þegar ég segi þeim að titarann minn skorti hæfni og áhuga á að liggja í faðmlögum og plana sumarfríið, taka þátt í kostnaði við húsnæðiskaup, mótmæla því að ég sé ekki fullkomin útlits eða sýna lifandi áhuga á hæfileikum mínum, verða þær ponkulítið vandræðalegar. Rétt eins og þær hafi aldrei áttað sig á því hvers vegna þær hanga ennþá með þessum körlum sínum, þrátt fyrir að þeir séu sumir hverjir feitir, sköllóttir og með ristruflun og þar að auki afbrýðissamir Út í titrarasett heimilsins.

Mæli með þessari bók

En nú er ég loksins búin að finna konu sem er mér sammála. Hún heitir Marianne Eilenberger og skrifaði ágæta sjálfsstyrkingarbók sem er til í íslenskri þýðingu undir heitinu „Á lausu“. Bókin fjallar ekki um það hvernig eigi að ná sér í mann eða hvernig maður eigi að sætta sig við að enginn vilji mann, heldur kennir hún aðferðir og viðhorf til að komast lítt skaddaður frá fordómum samfélags sem lítur á þarfir einhleypra sem feimnismál.