Að „selja“ ríkiseignir fyrir spítala

Heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson á „von á því“ að ríkissjóður fjármagni byggingu nýs Landspítala með sölu ríkiseigna.

Það er ekki ný hugmynd.  Fyrir tíu árum eða svo var Síminn, áður Landssíminn, „seldur“ og átti að nota féð til að byggja umræddan spítala.  Þeir peningar eru horfnir, og ekki var svo mikið sem stungið niður skóflu til að hefja spítalabygginguna.  Bankarnir, einnig eign almennings, voru líka „seldir“.  Hafi eitthvað verið greitt af söluverðinu er ljóst að það fé er ekki nema örlítið brot af því tjóni sem nýir eigendur bankanna ollu.
Samtímis því sem ekki er til fé í ríkissjóði til að byggja nýjan spítala er verið að gefa útgerðarfyrirtækjum, ekki síst sumum ríkustu græðgiskapítalistum landsins, tugi milljarða sem hægt hefði verið að nota í verkið.
Reynslan af einkavæðingu ríkiseigna á Íslandi á þessari öld er svo hörmuleg að það væri brjálæði að endurtaka þann leik.  Ekki bara hafa gjafir stjórnvalda á eigum almennings til útvaldra vildarvina í góðu „talsambandi“ við valdaklíkurnar skilað nánast engum peningum í ríkissjóð, heldur hafa þessar gjafir leitt af sér einhverjar mestu efnahagshörmungar í manna minnum á Íslandi.  Hörmungar sem allar bitna á saklausum almenningi, sem þar að auki hefur verið rændur, á meðan glæpamennirnir halda áfram að raka saman auði á kostnað sama almennings.