Kona í opinberri stöðu níðir karl

[Að gefnu tilefni (vond umræðuhefð) er rétt að taka fram að ég er hér ekki að lýsa yfir stuðningi við neitt af því sem Hannes Hólmsteinn hefur nokkurn tíma sagt.]
Í frétt í Vísi í dag, þar sem fjallað er um ummæli Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, er eftirfarandi haft eftir Kristínu Ástgeirsdóttur, sem rætt var við sem framkvæmdastýru Jafnréttisstofu:

„Hér á ráðstefnunni er heimsfrægur fræðimaður sem heitir Michael Kimmel. Hann hélt fyrirlestur í gær um angry white male. Þeir kenna konum um að þeir fái ekki stöður eða þeim líði ekki vel eða hvað það nú er. Sjónarmið Hannesar fara ansi nálægt þessum málflutningi.“
Prófum nú að snúa kynjahlutverkunum við og hugsum okkur að deildarforseti Stjórnmálafræðideildar Háskóla Íslands hefði sagt eftirfarandi, um yfirlýsingar Kristínar um kynjamál:
„Hér á ráðstefnunni er heimsfræg fræðikona sem heitir Michelle Kimel.  Hún hélt fyrirlestur í gær um gramar konur á tíðahvörfum.  Þær kenna körlum um að þær fái ekki stöður og líði ekki vel, eða hvað það nú er.  Sjónarmið Kristínar fara ansi nálægt því að vera af þessum toga.“
Hver hefðu viðbrögðin orðið?  Því er fljótsvarað; það hefði allt orðið brjálað.  Eðlilega, því burtséð frá því hvað manni fyndist um málflutning Kristínar þá væri það ekki boðlegt að forstöðumaður ríkisstofnunar talaði með þessum hætti.
En, á Íslandi hefur það áunnist í „jafnréttisbaráttunni“ sem rekin er fyrir almannafé, að kona í stöðu Kristínar getur átölulaust leyft sér að tala með sóðalegum hætti, í krafti embættis síns, um karlmann með rangar skoðanir.

Deildu færslunni