Sæll nafni
Það var nógu slæmt gerræðið (svo maður segi ekki valdaránið) sem þú framdir á Alþingi í dag, þar sem þú ákvaðst að innanríkisráðherra skyldi undanþeginn því sem hingað til hefur verið álitin skylda ráðherra, að svara spurningum þingmanna. Þetta gerðir þú án þess að hafa til þess nokkurn rétt, nema rétt valdníðingsins sem telur að eigin völd réttlæti hvaða yfirgang sem er.
Það er sérlega sláandi að forseti Alþingis komi fram með þessum hætti, því þér er fullkunnugt um að hlutverk þingforseta er að tryggja að störf þingsins fari fram með sómasamlegum hætti, en ekki að hlífa eigin pólitísku vopnasystkinum við því að svara réttmætum spurningum um framgöngu sína.
Hafi einhver látið sér detta í hug að það hafi verið hlutlaust mat þitt á störfum þingsins sem réði för í þessari einræðisherralegu ákvörðun þinni, þá sýndirðu skömmu síðar svo ekki varð um villst hvað vakti fyrir þér, þegar þú djöflaðist á bjöliunni eins og vitfirrtur djákni í kirkjuturni til að reyna að yfirgnæfa orð þingmanns sem var að segja óþægilega hluti um flokkssystur þína innanríkisráðherrann. Þegar ráðherrann kom svo næstur í ræðustól og fór fram yfir tíma sinn var bjöllukonsert þinn allt í einu orðinn að lágværum klið lotningarfullra kórdrengja.
Þú ættir að skammast þín, nafni, og biðjast fyrirgefningar á þessu í skyndi, frammi fyrir alþjóð. Að öðrum kosti, ef þú ert ekki maður til þess, ættirðu að afsala þér bæði forsetatitlinum og þingmennskunni, sem þú ert þá ekki bógur til að ráða við.
Með samúðarkveðju,
Einar