Hanna Birna er samviskulaus lygari

Þann 20. nóvember birtist frétt í Morgunblaðinu um að blaðið hefði undir höndum „óformlegt minnisblað“ úr innanríkisráðuneytinu, þar sem dylgjað var um einkamál tveggja hælisleitenda og einnar íslenskrar konu.  Öllum sem vildu vita varð fljótlega ljóst að minnisblaðinu hafði vísvitandi verið lekið í fjölmiðla af háttsettu fólki í ráðuneytinu, og er þar um að ræða hegningarlagabrot sem varðar allt að tveggja ára fangelsi.

Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, hélt því fram á Alþingi að umrætt minnisblað (sem fór víða) væri „ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu“.  Til að bíta höfuðið af skömminni hreytti hún svo fúkyrðum í þingmenn sem leyfðu sér að spyrja um þetta svívirðilega mál sem hún ber sjálf ábyrgð á, auk þess sem hún reyndi að varpa grun á undirstofnanir ráðuneytisins, sem í ljós kom að aldrei höfðu fengið minnisblaðið, og jafnvel á Rauða Krossinn, sem hún hafði svo í hótunum við, undir rós, með vel tímasettri heimsókn.
Nú hefur það endanlega verið staðfest sem flestum hefur lengi verið ljóst, að umrætt minnisblað var samið í ráðuneytinu, og því var augljóslega lekið þaðan.  Það er því líka orðið ljóst að Hanna Birna laug blákalt að Alþingi, og þjóðinni, sem í öllum löndum með einhvers konar pólitískt siðferði hefði leitt til að hún hefði nú þegar neyðst til að segja af sér.
Önnur hlið á þessu máli, og ekki síður alvarleg, er að málið hefur verið til umfjöllunar hjá ríkissaksóknara, lögreglu, héraðsdómi og Hæstirétti.  Annars vegar er ósvífið siðleysi hjá ráðherra að víkja ekki a.m.k. tímabundið á meðan undirmenn hennar, sem eiga starf sitt og framtíð undir geðþótta ráðherrans, rannsaka meint alvarlegt hegningarlagabrot hennar og/eða nánustu samstarfsmanna.  Hins vegar lýsir það ekki síður fyrirlitningu á réttarríkinu að ráðherra sitji sem fastast þegar lögregla, ákæruvald og dómstólar fjalla um mál sem hún eða aðstoðarmenn hennar geta augljóslega upplýst.
Ástæðan er auðvitað sú að Hanna Birna veit að pólitískum ferli hennar er lokið ef allur sannleikurinn kemur upp á yfirborðið.  Hins vegar að hún setur eigin hagsmuni ofar réttarríkinu, borgaralegum réttindum einstaklinga og því sem almennt er talið að valdafólk eigi að vera: hreinskilið og heiðarlegt.
Hanna Birna Kristjánsdóttir er ómerkilegur lygari og samviskulaus valdafíkill.