Opið bréf til Mikaels Torfasonar

Sæll Mikael
Gaukur Úlfarsson var að bjóða mér að spyrja Katrínu Jakobsdóttur spurningar í þætti þínum Mín skoðun.  Ég afþakkaði.  Ég vildi að vísu gjarnan fá að spyrja margt stjórnmálafólk ýmissa spurninga sem ég tel að fjölmiðlar hafi annað hvort ekki gert eða klúðrað.  En það er vonlaust að gera það með þessum hætti, þannig að nokkuð vitrænt sé líklegt til að koma út úr því.  Færi það eins og ég tel líklegast, miðað við frammistöðu þína hingað til, yrði það þvert á móti til þess eins að gefa viðkomandi stjórnmálamanneskju tækifæri til að fegra eigin ímynd.

Stjórnmálafólk á nefnilega yfirleitt auðvelt með, og tíðkar margt, að víkja sér undan því að svara erfiðum spurningum beint, auk þess sem oftast þarf að spyrja framhaldsspurninga til að fá eitthvað út úr því.  Í útlöndum er þetta oft erfiðara af því að þeir sem spyrja eru stundum fólk sem annars vegar hefur raunverulegan áhuga á að fá fram eitthvað bitastætt og hins vegar hefur til að bera þá lágmarks þekkingu, hæfileika og metnað sem til þarf.
Vel má vera að ég vanmeti hæfileika þína sem fréttmanns.  En það er þá eingöngu vegna þess að þú hefur farið með þá eins og mannsmorð.
Mér var boðið að spyrja spurningar kynntur sem „Virkur í athugasemdum“.  Mér væri að vísu nákvæmlega sama um það sjálfum, og hefði ekki látið það stoppa mig hér.  Mér finnst hins vegar bókstaflega subbulegt af þér að kynna fólk með þessum hætti í þættinum.  Þótt mér finnist þessi titill alls ekki niðrandi þá veist þú vel að það er algengt viðhorf að virkir í athugasemdum séu leiðinda kverúlantar.  Það sem verra er, þú kynnir með þessum hætti fólk sem hefur gjarnan áhugaverða hluti að segja og gerir þannig lítið úr því.
Til að bíta höfuðið af skömminni notar þú þetta svo til að gefa valdamanneskjum, sem spurningu eða gagnrýni er beint að, kost á að „svara“ eins og þeim finnst henta sjálfum, án þess að þú hafir gert minnstu tilraun til að fá fram eitthvað sem skiptir máli.
Í stuttu máli:  Þú notar þáttinn þinn til að niðra venjulegt fólk, samtímis því sem þú bugtar þig og beygir fyrir valdinu.  Fjær er varla hægt að komast  því sem einkennir góða og metnaðarfulla fréttamennsku.
Bestu kveðjur,
Einar