Píkurakstur, femínismi, forræðishyggja og fordómar

Eitt af því sem einkennir umræðu um femínisma og mál sem eru mörgum femínistum hugleikin eru staðhæfingar femínista um að rannsóknir sýni hitt og þetta, þótt sjaldan sé hægt að fá ábendingar um áreiðanlegar slíkar rannsóknir þegar beðið er um þær.  Annað sem er líka algengt eru staðhæfingar um að ekki sé til neitt sem heitið geti öfgafemínismi, af því að femínismi snúist um það eitt að kynjajafnrétti sé ekki náð og að eitthvað þurfi að gera í því.  Það er út af fyrir sig barnaleg afstaða að halda að ekki finnist öfgar í öllum skoðanahópum þar sem rætt er um hluti sem einhver minnsti ágreiningur er um.  Hitt er líka ljóst að meðal þeirra sem kalla sig femínista eru margir sem flytja mál sitt með heiftúðugum hætti, og fá nánast aldrei skammir fyrir það frá neinum sem kalla sig femínista.

Í þessum bloggpistli eru dæmi um ýmislegt það sem er vont í  málflutningi femínista.  Þetta er sannarlega ekki versta dæmið sem sést hefur í íslenskri umræðu síðustu mánuði, en það er lýsandi fyrir það viðhorf að fordómar sumra eigi að ráða hegðun annarra, og  eins hvernig meintar rannsóknarniðurstöður eru notaðar til að styðja málflutninginn, þótt það sem vísað er í hafi engin tengsl við það sem staðhæft er í sambandi við umræddar tilvísanir.

Í pistlinum er vísað í fjórar greinar, sem eru auðkenndar með [1], [2], [3] og [4].  Vefslóðir eru gefnar á umræddar greinar, þar sem hægt er að sjá útdrátt úr þeim en um sumar þeirra gildir að aðgangur að greininni sjálfri er ekki öllum opinn.  Mér tókst þó að komast yfir allar greinarnar í heild sinni.  Hér fara á eftir nokkrar úrklippur úr bloggpistlinum og athugasemdir mínar.

Margir, aðallega kynja- og kynfræðingar, hafa bent á beint samband á milli aukinnar eftirspurnar á barnaklámi og æskudýrkun annars vegar og rakstri kynfæra hins vegar[1]. Það vill auðvitað enginn viðurkenna að eitthvað sem þú gerir, á hverjum degi jafnvel, gerirðu vegna áhrifa barnakláms.

Í greininni sem hér er vísað í (merkt [1]) er ekki að finna neitt um  „samband á milli aukinnar eftirspurnar á barnaklámi og æskudýrkun annars vegar og rakstri kynfæra hins vegar“, hvað þá um „beint samband“.  Ég fann heldur ekki orð í þessari grein um barnaklám.

Ergó. Með rakstrinum fjarlægir þú ekki aðeins það sem ver þig gegn sýkingu heldur geturðu beinlínis búið til sýkingu með rakstrinum[2],

Í grein [2] er fjallað um tvítuga konu með sykursýki 1 í slæmu ástandi ( „poorly controlled type 1 diabetes“).  Konan hafði látið fjarlægja kynfærahárin með „brasilísku vaxi“, sem mun vera algeng aðferð við slíkt, og fengið lífshættulega sýkingu í kjölfarið.  Hér er fjallað um eitt dæmi, sem í sjálfu sér segir ekkert um hættuna samfara slíkri háreyðingu, auk þess sem konan var með annan alvarlegan sjúkdóm sem virðist hafa gert hana viðkvæmari fyrir sýkingum (hafi ég skilið greinina rétt).

Það er nefnilega bara einn vettvangur sem sýnir kynfæri kvenna ítrekað og hefur mikil áhrif, það er klámiðnaðurinn. Það er ekkert útúr korti að ætla klámi og klámvæðingu þessa snöggu viðhorfsbreytingu hins vestræna samfélags á rakstri kynfæra. Ekki bara vegna þess að barnaklám er eftirsótt og þar af leiðandi mjög þrautseig tegund kláms heldur líka vegna þess að einmitt um þetta leyti, í kringum aldmótin 2000, varð til gósentíð kláms og klámvæðingar[3].

Hér eru margar staðhæfingar, og engin þeirra studd rökum eða gögnum.  Hins vegar er gefið í skyn að um sé að ræða orsakasamhengi milli hluta án þess að séð verði að höfundur hafi nokkra ástæðu til þess.  Í grein [3] sem vísað er í er ekkert sem styður fullyrðingarnar, og alls ekkert minnst á „gósentíð“ kringum 2000, enda fjallar greinin um erfiðleika við að ákvarða aldur fólks í barnaklámefni út frá myndum.

Þegar óheilbrigður rakstur, súludans og kynbundið ofbeldi sem birtist iðulega í auglýsingum[4] er orðinn hluti af okkar daglega lífi, hluti af því sem við veitum ekki tiltakanlega athygli, er þá ekki komið gott?

Greinin sem hér er vitnað í styður alls ekki  staðhæfingarnar í setningunni.  Þvert á móti eru upphafsorð hennar þessi „Í þessari grein er haldið fram að orðið hafi miklar breytingar á því hvernig konur eru kynntar í auglýsingum á síðustu árum, þannig að í stað þess að þær séu kynntar sem óvirk viðföng karlkyns áhorfenda séu ungar konur nú oft sýndar sem virkar, sjálfstæðar og kynferðislega sterkar.“   („This article argues that there has been a significant shift in advertising representations of women in recent years, such that rather than being presented as passive objects of the male gaze, young women in adverts are now frequently depicted as active, independent and sexually powerful.“)

Umræddur bloggpistill er auðvitað bara eitt lítið dæmi um málflutning femínísta sem býsnast yfir heimsósóma sem ekki passar við  fordóma viðkomandi.  Trúlega er höfundurinn ekki þjálfaður í meðferð tilvitnana, þótt það sé auðvitað engin afsökun fyrir þeirri fölsun sem það er að vitna í fræðigreinar sem alls ekki styðja staðhæfingarnar sem þær eiga að styðja.  Haldi menn að það séu bara amatörar meðal femínista sem leyfa sér slíkt er það misskilningur.  Það er líka af nógu að taka þegar „fræðimenn“ meðal kynjafræðinga eru annars vegar.  Hér er eitt dæmi:

Þann 8. desember var viðtal í Speglinum í RÚV við prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands.  Hún lagði þar út af  kjarakönnun   félags viðskipta- og hagfræðinga sem haldið var fram að sýndi að laun karla innan félagsins hefðu hækkað um 1,7% en laun kvenna lækkað um 1,9%, og sagði að ljóst væri að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að leiðrétta launamun væru greinilega ekki að virka, og því þyrfti að gera eitthvað róttækara.  Þar sem tölurnar eru lágar velti ég því fyrir mér hvernig staðið hefði verið að könnuninni, og hvort þessi munur í launaþróun sem hún hefði mælt væri marktækur.  Ég spurði því prófessorinn hvort hún hefði kynnt sér aðferðafræðina við könnunina, og hvort munurinn væri marktækur, ef maður gæfi sér að ekkert væri athugavert við úrvinnsluna.  Ég fékk stutt svar þar sem hún benti mér á frétt á mbl.is þar sem sagt var frá þessum niðurstöðum en engu svarað af því sem ég spurði um.  Einnig benti hún mér á að ég þyrfti að hafa samband við félagið til að fá frekari svör.  Þegar ég ítrekaði spurninguna um hvort hún hefði kynnt sér þessa könnun sem hún lagði  út af í löngu Spegilsviðtali fékk ég ekkert svar.

Einhvern tíma síðar mun ég fjalla um meistararitgerðir í kynjafræði við HÍ sem ofangreindur prófessor benti mér sérstaklega á í umræðum um „klámvæðingu“.  Þar eru á ferðinni ritgerðir nemenda sem umræddur prófessor leiðbeindi, þar sem fyrst er lýst yfir að höfundur sé einlægur femínisti með ákveðnar skoðanir á því sem ritgerðin fjalli um.  Síðan eru tekin viðtöl við nokkrar manneskjur sem höfundurinn velur að eigin geðþótta, og vinnur svo niðurstöður úr þeim, líka að eigin geðþótta.  Að lokum er því svo lýst yfir að komist hafi verið að niðurstöðum sem, merkilegt nokk, komi heim  og saman við það sem höfundurinn var sannfærður um áður en „rannsóknin“ fór fram.  Þetta eru ekki vinnubrögð af því tagi sem háskóli með sjálfsvirðingu ætti að hvetja til í nafni rannsókna.

PS.  Ég tel jafnréttisbaráttu mikilvæga, og ég er ekki áhugamaður um píkurakstur.