Forysta ASÍ svíkur. Aftur.

Í nýlegri skýrslu frá Hagdeild ASÍ er álver í Helguvík nefnt tuttugu sinnum, þ.e.a.s. rúmlega einu sinni á blaðsíðu.  Þetta vekur upp tvær spurningar:

Er Hagdeild ASÍ ekki kunnugt um það sem allir vita sem vilja vita, að það er ekki til, og hefur aldrei verið til, nema örlítill hluti af því rafmagni sem þyrfti fyrir þetta álver?

Og, heldur forysta ASÍ að það væri til hagsbóta fyrir umbjóðendur hennar að fara út í virkjanaframkvæmdir og aukna stóriðju?

Seinni spurningunni er reyndar svarað nokkurn veginn beint í skýrslunni:

Eina leiðin fyrir okkur til að bæta lífskjör og draga úr atvinnuleysi er að auka verðmætasköpun þjóðarbúsins.

Það virðist hafa farið fram hjá forystu ASÍ að Ísland er eitt ríkasta land í heimi.  Það virðist líka hafa farið fram hjá forystunni að brauðmolakenningin svokallaða er röng, eins og glöggt hefur komið í ljós síðustu ár á Íslandi eins og mörgum öðrum löndum:  Aukinn gróði hinna ríku leiðir ekki til þess að kjör hinna fátækari batni.

Það er eiginlega bara hægt að draga eina ályktun af þessu:  Forysta ASÍ er, eina ferðina enn, komin upp í fangið á Vilhjálmi Egilssyni og Samtökum Arðræningja.

Ef forystu ASÍ væri í raun umhugað um félagsmenn sína, þá væri hún að berjast fyrir betri kjörum þeirra lægst launuðu.  Leiðin til að bæta þau er ekki að tala upp hagvöxt, allra síst með því að sífra um framkvæmdir sem löngu er vitað að eru jafn ómögulegar og að flytja út lambakjöt til Mars.

Leiðin sem forysta ASÍ færi ef hún hefði minnsta áhuga á að bæta kjör verkafólks er að krefjast þess að undið verði ofan af þeirri misskiptingu sem tröllriðið hefur þjóðfélaginu.  En á því virðist hún hafa litinn áhuga, enda mun forseti ASÍ hafa lagst eindregið gegn því að verðtrygging yrði afnumin í kjölfar hrunsins.  Greinilega var honum meira í mun að vernda hagsmuni fjármagnseigenda en þess fjölda ASÍ-félaga sem nú eru að kikna undir stökkbreyttum húsnæðislánum.

Eina ráðgátan í þessu sambandi er af hverju félagsmenn ASÍ eru ekki löngu búnir að senda Gylfa í ævilangt frí.

Deildu færslunni