Í hádegisfréttum útvarps í dag sagði Ástráður Haraldsson að það væri eðlilegt að hann tæki aftur sæti í Landskjörstjórn, af því að hann nyti trausts Alþingis. Hann minntist ekki á að þetta sama Alþingi nýtur trausts um tíu prósenta þjóðarinnar, og því er traustsyfirlýsing þess engin yfirlýsing um traust þeirra sem þurfa að treysta honum, almennings í landinu. Auk þess er það skrípaleikur að segja af sér embætti og setjast í það aftur mánuði síðar.
Hér er enn og aftur kominn sá valdahroki sem Ísland þarf svo sárlega að losna við. Stjórnvöld í lýðræðisríki eiga að þurfa traust almennings, þau eiga að sækja vald sitt til hans, og til þess eins að þjóna hagsmunum þessa sama almennings.
Það er ekki nóg að fólk í opinberum valda- og ábyrgðarstöðum njóti trausts hvert annars. Að tala á þeim nótum lýsir nákvæmlega þeirri afstöðu sem íslenska valdaklíkusamfélagið byggir tilveru sína á. Sú afstaða hefur meðal annars verið kölluð samtrygging og fjórflokkur, og ekki að ástæðulausu.
Ástráður Haraldsson er ekki stærsta vandamálið í íslensku stjórnsýslunni. En staðhæfing hans í dag er lýsandi fyrir verstu meinsemdina í íslensku stjórnmálalífi: Þá hugmynd að ríkisvaldið sé til fyrir valdastéttina, en ekki þjónn almennings.