Alþingi sýnir f-merkið

Fyrir fáum vikum sagði Landskjörstjórn af sér, þar með talinn formaður hennar, Ástráður Haraldsson, af því að kosningin til Stjórnlagaþings var úrskurðuð ógild fyrir handvömm kjörstjórnarinnar.  Það er hægt að hafa ólíkar skoðanir á úrskurðinum, en það tíðkast í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við að segja af sér embætti ef maður nýtur ekki trausts þeirra sem yfir mann eru settir.  Fyrir því er góð ástæða, jafnvel þótt maður sé ósammála þeim sem ræður för, og það er sérlega mikilvægt að kjörstjórn njóti óskoraðs trausts.

Það var ekkert athugavert við að Ástráður gagnrýndi úrskurðinn opinberlega, eftir að hann sagði af sér (þótt oftast sé betra að aðrir sjái um það en sá sem þurfti að segja af sér).  Við gerum öll mistök, og þegar það gerist þurfum við að geta játað það og tekið afleiðingunum, sem hefur lítt verið í tísku hér á landi.  Þegar Ástráður sagði af sér var ekki laust við að maður þættist sjá bjarma af nýjum degi  og færi að vona að hér myndi á endanum rísa nýtt Ísland úr öskunni.

En, Ástráður ákvað að bíta höfuðið af skömminni með því að taka aftur sæti í sömu Landskjörstjórn, eins og sagt var frá hér, og nú hellist svartnættið yfir á ný.

Það verður heldur ekki til að bæta laskaða ímynd Alþingis að það skuli senda þjóðinni fokkmerki með þessum hætti.  Því nægir ekki að setja áfram flokksgæðinga í þá Landskjörstjórn sem ætti auðvitað að vera fulltrúi borgaranna en ekki þeirra stjórnmálaflokka sem nú eiga fólk á þingi.  Alþingi finnst greinilega ástæða til að ganga skrefi lengra og tryggja að í Landskjörstjórn sitji flokksgæðingar sem hafa klúðrað nákvæmlega því starfi.

Deildu færslunni