Bankarnir skipa stjórn Fjármálaeftirlitsins

Fyrirsögnin á þessum pistli er röng, en til þess gerð að draga athyglina að staðreynd sem er álíka fáránleg.  Eins og sjá má hér er það venjan að flokkarnir á Alþingi velji fulltrúa sína í Landskjörstjórn.  Mér dettur ekki í hug að halda að þetta hafi valdið því að svindlað hafi verið í kosningum.  Það er hins vegar lýsandi dæmi fyrir hugsunarhátt sem gegnsýrir íslenska stjórnsýslu, og er ekki í lagi:  Að ríkisvaldið sé til fyrir stjórnmálaflokkana, en ekki fyrir almenning.

Þessi hugsunarháttur er eitt af því sem ný stjórnarskrá þyrfti að snúa við, meðal annars með  upplýsingaákvæðum í stíl við sænsku stjórnarskrána.  Þar er grundvallarreglan að allar upplýsingar í fórum opinberra aðila eiga að vera aðgengilegar almenningi, tafar- og undanbragðalaust.  Hugsunin á bak við íslensku upplýsingalögin, meira að segja þau nýju sem eiga að vera í burðarliðnum, er hins vegar að stjórnvöld skammti borgurunum upplýsingar úr hnefa.  Sú hugsun byggir á þeirri afstöðu að stjórnsýslan eigi að vera tæki valdhafa til að treysta völd sín, ekki þjónn almennings.