Sorphirða, sparnaður og heimska

Borgarstjórn Reykjavíkur ákvað nýlega að krefjast sérstakrar greiðslu fyrir sorphirðu í þeim húsum þar sem meira en 15 metrar eru að sorptunnunum frá þeim stað sem sorpbílarnir komast næst.  Uppgefin ástæða er sparnaður, þ.e.a.s. útgjaldaminnkun hjá borginni.

Almennt séð er sjálfsagt að borgin innheimti gjöld fyrir þann kostnað sem hún verður fyrir vegna þjónustu við íbúana.  En það er hæpið að láta þá íbúa borga aukalega sem eiga sorptunnur fjærst gatnakerfinu og fáránleikinn verður sérlega frumlegur þegar þetta gildir um íbúa eins stigagangs í blokk en ekki næsta. Engum dettur í hug að láta þá borga hærri gatnagerðargjöld sem búa innst í botnlanga, þótt þeir noti augljóslega meira af gatnakerfinu en nágrannar þeirra.  Jafn fráleitt væri að heimta hærri gjöld fyrir vatnið af þeim sem búa fjærst dælustöðvunum.

Það sem er þó verra við þetta, sérstaklega fyrir flokk eins og Samfylkinguna, sem þykist vera félagslega sinnaður,  er sú sóun sem felst í því að eyða peningum í vinnu við að mæla fjarlægðina í sorptunnur borgarbúa, og að koma upp innheimtukerfi þar sem þessu er haldið til haga.  Þannig er dregið úr vinnunni við þá þjónustu sem borgarbúar njóta (og borga fyrir) og þeir peningar sem sparast settir í míkrókapítalískt innheimtukerfi sem er til ama fyrir íbúana, og til háborinnar skammar fyrir þá sem fara með völdin í Reykjavík.

Þetta er í besta falli ófyrirgefanleg heimska, en í versta falli andfélagslegur hugsunarháttur.

Deildu færslunni