Það var stórkostleg framför þegar farið var að brenna gott kaffi á Íslandi, og gera það vel, eins og sumar af litlu kaffibrennslunum með metnað gerðu í upphafi, í kringum 1990. Það var sorglegt að sú kaffibrennsla sem náði undirtökunum á markaðnum (Kaffitár) og sem átti drýgstan þátt í að stórbæta kaffimenninguna hér, skyldi á endanum hætta að selja kaffi sem er nógu mikið brennt til að hægt sé að gera úr því alvöru espresso í vél. Ennþá sorglegra var þegar Kaffitár hætti að selja (og nota á eigin kaffihúsum) nýbrennt kaffi, og lét sér nægja að selja kaffi sem var brennt nokkrum vikum áður en það var til sölu. Það þarf engan sérfræðing til að finna muninn á slíku kaffi og því sem er brennt fáum dögum áður en það er malað og lagað.
Í dag var ég svo lánsamur að kaupa kaffi í lítilli kaffibrennslu þar sem fólk veit hversu mikið þarf að brenna kaffi til að góðar espressovélar nái út úr því öllum þeim blæbrigðum bragðs sem hægt er (og til þess að losna við moldarbragðið sem loðir við of lítið brennt kaffi í slíkum vélum). Það leyndi sér heldur ekki munurinn á því að drekka loksins aftur nýlega brennt kaffi, miðað við gamalt.
Kaffibrennslan sem selur alvöru espressokaffi, og það nýbrennt, heitir Café Haiti. Loksins er margra ára þrautagöngu lokið. Í bili að minnsta kosti, og nú er bara að vona að þetta fyrirtæki lifi áfram, og komist ekki að þeirri niðurstöðu að það gæti grætt meira á að búa til lélegra kaffi.