Gráðugir bankastjórar — máttlaus forsætisráðherra

Af hverju dettur fólki í hug að borga  íslensku bankastjórunum svona há laun?  Skýring varaformanns stjórnar Arionbanka í hádegisfréttum RÚV í dag var engin skýring, nefnilega að það hefði þurft að borga svona mikið til að ráða þennan mann.  Spurningin er hvort það ætti ekki að leggja blátt bann við því að ráða í bankastjórastöðu mann sem heimtar svona há laun.  Öfugt við það sem margir halda fram virðist ekki vera nein jákvæð fylgni milli þess að hafa ofurlaun og að standa sig vel í starfi.  Reyndar er ýmislegt sem bendir til hins gagnstæða.  Þar á meðal er þessi áhugaverði fyrirlestur.

En eiginlega þurfum við ekki að fara langt til að sjá villuna í þeirri staðhæfingu að þeir sem heimta og fá ofurlaun séu líklegri til að vera góðir stjórnendur en hinir nægjusömu.  Þetta eru rökin sem notuð voru fyrir brjálæðislegum launum í bankakerfinu fyrir hrun.  Ljóst er ef reynslunni að margt af fólkinu sem naut þeirra launa var versta fólk sem hægt var að finna í þessi störf.

Hneykslun forsætisráðherra á ofurlaunum væri gleðileg ef ekki vildi svo illa til að hún er búin að tjá sig um mál af þessu tagi í meira en þau tvö ár sem hún hefur setið í embætti.  Úr því henni finnst þetta siðlaust, og það virðist löglegt, þá stendur upp á hana að kippa þessu í lag.

Ég á ekki við að setja eigi sérstök lög um þetta, því ég sé ekki að það yrði auðvelt (þótt vel mætti velta fyrir sér möguleikunum á slíku).  Ég er eindregið fylgjandi frjálsum markaði þar sem hann virkar vel, og sem minnstum afskiptum ríkisvaldsins af atvinnulífinu.  En ég get ekki fyrir mitt litla líf séð annað, eftir reynsluna af íslensku bönkunum fyrir og eftir hrun, en að það yrði betra fyrir almenning að bankarnir yrðu þjóðnýttir í einhvern tíma, meðan verið er að koma siðferðinu og hugsunarhættinum innan þeirra í geðslegri farveg.  Ef það er þá einhver raunverulegur vilji innan ríkisstjórnarinnar til að bæta siðferðið …

Á meðan forsætisráðherra lætur sér nægja að lýsa vanþóknun sinni á framferði bankanna, án þess að lyfta litla fingri til að breyta því, hlæja fjármálaklíkurnar bara að henni á bak við alvörugefin smettin um leið og þær halda áfram að maka krókinn á kostnað almennings.

Deildu færslunni