Gleymum því ekki að mótmælin sem sakborningar tóku þátt í fóru friðsamlega fram af hálfu mótmælendanna.
Gleymum því ekki að mótmælendur neyttu stjórnarskrárvarins réttar síns, sem nú hefur verið svívirtur af stjórnvöldum.
Gleymum því ekki að mótmælin sem dæmt var fyrir voru lítill hluti af gríðarlegum mótmælum sem stóðu mánuðum saman, og sem áttu rætur sínar að rekja til algers hruns íslenska efnahagskerfisins, og skipbrots íslenskra stjórnmála. Skipbrots þeirra stjórnvalda sem nú fara fram með ofsóknum á hendur þeim sem mótmæltu vanhæfi og spillingu þessara sömu stjórnvalda.
Gleymum því ekki að engir þeirra sem ollu hruninu hafa verið saksóttir.
Gleymum því ekki að starfsmenn Alþingis völdu úr mikilvægustu sönnunargögnunum, myndupptökum úr þinghúsinu, það sem þeim fannst „áhugaverðast“ fyrir sig, en eyddu hinu.
Gleymum því ekki að forseti Alþingis ásakaði nímenningana um að hafa slasað starfsfólk Alþingis, og neitaði að draga þá staðhæfingu tilbaka þrátt fyrir að í ljós kæmi á upptökum úr þinghúsinu að þetta var rangt.
Gleymum því ekki að saksóknarinn, Lára V. Júlíusdóttir, pantaði ákæru fyrir húsbrot frá skrifstofustjóra Alþingis, Helga Bernódussyni.
Gleymum því ekki að bæði Lára og Helgi lugu því að þau hefðu ekkert samráð haft um ákæruna.
Gleymum því ekki að þrátt fyrir að nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, og fjölmargir stuðningsmenn hennar, hafi gagnrýnt þingforseta harðlega fyrir framgöngu sína, þá situr Ásta Ragnheiður á stóli þingforseta í skjóli Samfylkingarinnar.
Gleymum því ekki að Lára V. Júlíusdóttir er innanbúðarmanneskja í Samfylkingunni, og hjá „brotaþolanum“ Alþingi.
Gleymum því ekki að Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra neitaði að stöðva þessa ógeðfelldu saksókn.
Íslenskur almenningur hefur áður gengið í gegnum svívirðilegar ofsóknir af þessu tagi, eftir mótmælin við inngönguna í NATO 1949. Þau sár sem valdastéttin veitti þá greru seint, og ennþá sjást örin eftir þau. Þá voru það hatursfullir og óttaslegnir hægrimenn sem beittu þunga valdsins til að kúga þá sem dirfðust að mótmæla. Nú fer kúgunin og svívirðan fram í nafni Samfylkingarinnar, með þegjandi samþykki forystu Vinstri Grænna.