Hvað verður um þingforseta sem lýgur?

Ásta R. Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, neitaði staðfastlega að tjá sig um mál Nímenninganna á meðan það væri fyrir dómstólum.  Þann 17. maí 2010, löngu eftir að ákæra var gefin út, hafði Ásta hins vegar sent Jóni Ólafssyni, prófessor á Bifröst, tölvupóst, í tilefni af ummælum hans í útvarpi um málið. Þar sagði hún meðal annars (allan póstinn má sjá hér):

 

Umfjöllun um málaferli gegn svokölluðum 9 menningum er á algjörum villigötum.
Staðreyndir eru þessar:

8. desember 2008 ræðst hópur fólks inn í Alþingishúsið bakdyrameginn, beitir þingverði ofbeldi til að komast upp á þingpalla, – yfirbugar þá og slasar starfsfólk þingsins.
Atburðir þessir koma greinilega fram á upptöku í öryggismyndavél.

 

Þótt starfsmenn Alþingis hafi (eins og fram kom í réttarhöldunum) valið úr öryggismyndavélunum þá kafla sem þeim fundust „áhugaverðastir“ fyrir sig, þá var þó alveg ljóst af þeim upptökum að þessi hópur fólks sem „ræðst“ inn í þinghúsið slasaði alls engan, enda var niðurstaða réttarins í samræmi við það.

Almenningur vissi að vísu lítið um hvað væri hæft í ásökunum um að Nímenningarnir hefðu slasað fólk fyrr en umrædd upptaka var sýnd í sjónvarpi.  En Ásta hafði auðvitað aðgang að upptökunni, enda vísar hún í hana þegar hún setur fram þessar röngu ásakanir í póstinum til Jóns.

Þar sem augljóst er af þessari upptöku að Ásta fer með rangt mál, eins og dómurinn staðfesti, og þar sem hún byggir staðhæfingar sínar einmitt á vísun í upptökuna, er erfitt að túlka þetta öðru vísi en svo að hún hafi vísvitandi sagt ósatt.  Það er að segja, að forseti Alþingis hafi logið blákalt.

Mörður Árnason fór fram á það á Alþingi í gær að Ásta forseti bæði Nímenningana strax afsökunar á því sem gerðist, en hún svaraði honum ekki, og fréttastofa RÚV náði ekki í hana.  Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður nokkurra af Nímenningunum, hefur lagt til að fram fari óháð rannsókn á aðkomu þingsins að málinu.  Hvort tveggja ætti að vera sjálfsagt mál.

Fyrirgefningarbeiðni Ástu myndi vafalaust létta henni þessa þungu byrði nokkuð, og flestir myndu trúlega líta hana mildari augum ef hún iðraðist og hefði í sér manndóm til að sýna það.

En það er samt hæpið að Alþingi geti haldið nokkurri virðingu ef það lætur sitja áfram forseta sem orðið hefur uppvís að því að ljúga um jafnalvarlegt mál, að ljúga þungum sökum upp á saklaust fólk.

Deildu færslunni