Frábært veitingahús

Fyrir mörgum árum langaði mig dálítið til að skrifa blaðadálk um veitingahús. Annars vegar var það vegna þess að ég bjó þá í Gautaborg og í borgarblaðinu þar var vikulegur dálkur, skrifaður af fólki sem hafði frekar lítið vit á því sem það var að skrifa um, þ.e.a.s. á mat og víni. Sem mér finnst svo sem í lagi (enda þykist ég ekkert vit hafa á slíku sjálfur), en alls ekki þegar skríbentarnir tala eins og þeir séu eitthvert yfirvald, samtímis því sem þeir afhjúpa fákunnáttu sína.

Hin ástæðan var að ég lenti í því nokkrum sinnum á fárra ára tímabili í upphafi siðasta áratugar að fara á (ný) veitingahús í Reykjavík sem byrjuðu mjög glæsilega, og voru virði þeirra miklu peninga sem þurfti að borga, en þar sem seig fljótt á ógæfu- og slappleikahliðina, þótt himinhátt verðið hörfaði ekkert. Tvö dæmi um frábær veitingahús sem síðan slöppuðust umtalsvert án þess að verða ódýrari voru La Primavera og Vox. (Rétt er að geta þess að ég hef á hvorugt komið í nokkur ár, svo þetta segir auðvitað ekkert um hvernig þau eru núna.)

Ég finn reyndar ekki lengur neina knýjandi þörf til að skrifa um veitingahús, en get ekki stillt mig um að segja frá ánægjulegustu uppgötvun sem ég hef gert á því sviði í mörg ár, þ.e.a.s. tiltölulega ódýru veitingahúsi með stórkostlegum mat og góðri þjónustu (en vínlista sem þyrfti að vera metnaðarfyllri). Þetta er Pisa, í Lækjargötu. Þar borðaði ég í gærkvöldi, í annað sinn á hálfu ári eða svo.

Mér datt ekki í hug fyrr en langt var liðið á máltíðina að blogga um þetta, svo ég skrifaði engar athugasemdir meðan ég var á staðnum, og óvíst að ég hefði nennt því hvort sem er, enda hef ég engin plön um að blogga reglulega um veitingahús. Því á ég erfitt með að lýsa því margslungna bragði sem gerði máltíðina svo eftirminnilega, og sem er svo nauðsynlegt til að mér geti fundist eitthvað varið í að fara á veitingahús, hvað þá að ég sé til í að borga mikla peninga fyrir það. Ég verð alltaf svekktur þegar ég fer á dýrt veitingahús þar sem ég fæ mat sem mér finnst að ég hefði getað gert jafn góðan sjálfur.

Pisa stóðst hins vegar með láði prófið að búa til betri mat en ég gæti gert (sem er ekki sérlega erfitt; ég er enginn meistarakokkur). Steinbíturinn, fiskur dagsins, var betri en orð fá lýst, sem mér finnst sérstaklega sláandi í ljósi þess að ég hef enn ekki fengið verulega gómsætan steinbít í heimahúsi (þótt ég þekki fólk sem þykist geta gert slíkt, og bíð spenntur eftir að sjá það sannað). Steinbíturinn var mjúkur í gegn, en stinnur, og samt vel steiktur að utan. Hann var borinn fram með skelfiskrisotto (með humri og rækjum í) og þetta risotto var ekki bara gott, öfugt við öll risotto sem ég hef borðað um ævina (nú móðgaði ég nokkra vini mína, þar með talið vinkonu sem fór einu sinni með mig á einhvern frægan risottostað í New York). Það var ekki bara gott heldur snilldarlegt, og bjó, ásamt einhverjum örfínum röndum af sósu (balsamediksþykkni?) til þetta samspil ólíkra bragða sem undirstrika hvert annað. (Já, ég veit að bragð er ekki til í fleirtölu, en …) Fyrir utan þessa snilld var matnum raðað þannig á diskinn að það var hrein unun á að horfa, og ég verð að játa að það hefur jákvæð áhrif á mig (þótt ég sé enn verri á því sviði sjálfur en í matargerð).

Svo má ekki gleyma forréttinum, nauta-carpaccio sem var líka með því besta sem ég hef fengið af því tagi, jafnvel á dýrustu veitingahúsum bæjarins. Örþunnt og mjög bragðmikið nautakjöt með þessu venjulega: Parmesan, klettasalati, furuhnetum, ólífuolíu.

Sessunautur minn fékk Klaustursbleikju með rótargrænmeti og kartöflumauki í aðalrétt. Ég fékk að smakka og komst að því að fordómar mínir voru ekki á rökum reistir: bleikjan var ljúffengasti silungur sem ég man eftir, þótt ég geti ekki lýst bragðinu. (Hér móðgaði ég líka gamla og góða vini sem gefa mér silung (oftast mjög góðan og framreiddan á ýmsan máta) í öll mál.) Kartöflumaukið var hins vegar óþarflega „fínmalað“, en það er e.t.v. bara smekksatriði.

Þjónustan var líka af þessu tagi sem er of sjaldgæf á Íslandi: Við tókum aldrei eftir þjónunum nema þegar við þurftum á þeim að halda, og þá voru þeir strax til staðar. Eftir á að hyggja átta ég mig líka á því að matinn fengum við nákvæmlega á réttum tíma, og án þess að velta nokkurn tíma fyrir okkur hvort hann væri að koma.

Ef ég á að kvarta yfir einhverju þá er það tvennt. Annars vegar að það var óþarflega mikið salt bæði í forréttinum og aðalréttinum. Það fannst að vísu ekki sessunaut mínum, svo þetta var e.t.v. óþarfa viðkvæmni mín, en það er hins vegar auðveldara að auka við saltið en minnka það, svo ég myndi heldur draga úr því. Hins vegar fannst mér vínlistinn of fátæklegur. Þótt dýrasta rauðvínið á listanum (Villa Puccini Riserva, sem var mjög ódýrt miðað við það sem gengur og gerist) hafi verið skammlaust (og því greinilega vel valið) hefði ég viljað meira úrval. Vilji maður halda sig við ítölsk vín eins og gert er á Pisa, en hafa vínin samt í ódýrari kantinum, má benda á nýlegt Amarone í Ríkinu, frá Sartori. Það er vissulega ekki mjög stórt (eins og fræðingar myndu líklega kalla það), en samt alvöru Amarone, á ótrúlega góðu verði.

Í stuttu máli: Pisa er tiltölulega ódýr veitingastaður, með frábæran mat og natni í allri þjónustu. Vonandi verður þó vínlistinn fjölskrúðugri þegar fram í sækir.

PS. Verði mér að þeirri ósk minni að Pisa bæti við betri (og dýrari) vínum á vínlistann sinn, þá er hér áskorun (til allra veitingahúsa): Álagning veitingahúsa á vín er hrikaleg (yfirleitt þreföldun á verði a.m.k.). Sé nauðsynlegt að leggja 4.000 krónur á flösku af 2.000 kr. víni ætti samt ekki að þurfa að leggja 10.000 á flösku sem kostar 5.000 í ríkinu. Veitingahús gætu gert viðskiptavinum sínum auðveldara að panta gott vín með því að hafa sömu krónutölu í álagningu á allt vín. Það ætti að þjóna hagsmunum þeirra, því mjög fáir panta dýr vín, en mun fleiri myndu gera það (og verða ánægðari með heimsóknina) ef þau væru ekki fáránlega dýr, sem þau verða ef álagningin er margfeldi af innkaupsverðinu.

PPS. Svo það sé á hreinu er rétt að geta þess að ég hef engin tengsl við þá sem eiga eða reka þennan stað (held ég a.m.k. ekki, því ég veit ekkert hverjir það eru).