Lára V. Júlíusdóttir þagði um vanhæfi sitt

Í réttarhöldunum yfir Nímenningunum fór verjandi (nokkurra) sakborninga fram á að settur saksóknari, Lára V. Júlíusdóttir, yrði úrskurðaður vanhæfur, vegna tengsla við meintan brotaþola, þ.e.a.s. Alþingi.  Lára sat nefnilega á þingi sem varamaður nokkrum sinnum á árunum 1987-90, og hún er nú formaður bankaráðs Seðlabankans, kjörin af Alþingi.  Rétturinn synjaði þessu, og það er erfitt að deila við dómara um slíkt, því meint vanhæfi af þessu tagi er matsatriði.

Í jafn alvarlegu máli og saksóknarinn taldi þetta vera (a.m.k. miðað við þá alvarlegu ákæru sem hún lagði fram um tilraun til að svipta Alþingi „sjálfræði“ sínu) er samt óþægilegt, svo ekki sé meira sagt, að vafi af þessu tagi geti leikið á hæfi saksóknarans, og það bætir ekki úr skák að Lára er pólitískur samherji forseta Alþingis.

Hitt er verra, að Lára var í raun vanhæf sem saksóknari í málinu, vegna fjölskyldutengsla við einn sakborninga, eins og fram kemur í tölvupóstum sem birtir eru hér að neðan.  Þessi tengsl (faðir Láru var giftur ömmu eins sakborninga) valda því, samkvæmt þremur lögfræðingum sem ég hef talað við, að Lára var vanhæf, samkvæmt d-lið 6. greinar laga nr. 88 frá 2008 (en sömu reglur gilda um vanhæfi saksóknara og dómara).

Lára segist, í tölvupósti, ekki hafa vitað um þessi tengsl fyrr en henni var bent á þau.  Hún vissi samt um þau áður en aðalmeðferð hófst í málinu, og því bar henni skylda til að segja sig frá því, og dómara hefði borið að víkja henni ef hann hefði orðið þess áskynja, en Lára virðist ekki hafa sagt frá þessu.

Hafi mér ekki yfirsést eitthvað mikilvægt í þessu er hér um að ræða ótrúlega vanvirðingu saksóknara við það réttarríki sem hún á að þjóna.  Það bætist við fleira í sama dúr, sem lýsir lítilsvirðingu hennar og Alþingis á réttarríkinu, þar sem meðal annars hefur verið farið með rangt mál, kærur pantaðar, og saklaust fólk ákært fyrir fádæma alvarleg brot, sem við liggja afar þungar refsingar.  Þetta gerir fólkið (forseti Alþingis og skrifstofustjóri) sem heldur því fram að það hafi eingöngu verið að sinna skyldum sínum í þágu þessa sama réttarríkis.

Ástæða þess að sakborningar kröfðust ekki að Lára viki þegar þeir áttuðu sig á þessu vanhæfi hennar var að þeim hraus hugur við að málið færi aftur á byrjunarreit, enda höfðu þeir þá verið dregnir í gegnum dómskerfið í heilt ár, og meira en tvö ár liðin frá atburðinum.  Það breytir engu um að Láru bar, lögum samkvæmt, skylda til að segja frá vanhæfi sínu og víkja.

——————————————————————

Hér fara á eftir tölvupóstar sem staðfesta þessa vitneskju Láru, tæpum tveim vikum áður en aðalmeðferð hófst í málinu.  Ég hef í einum pósti tekið út nöfn og sett bókstafi í staðinn.  Það er auðvitað ekki leyndarmál um hvaða fólk er að ræða, og tiltölulega auðvelt fyrir hvern sem er að finna út úr því, út frá þessum upplýsingum.  En, þar sem ég tel persónur þessa fólks vera málinu óviðkomandi finnst mér rétt að sleppa nöfnum þeirra.

——————————————————————

From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/1/6
Subject: Re: Samskipti setts saksóknara við Alþingi
To: „Lára V. Júlíusdóttir“ <lara@ll3.is>

Sæl aftur Lára,

Takk fyrir svarið.  Önnur spurning:  Er það rétt að amma eins sakborninga í nímenningamálinu hafi verið gift föður þínum?

Með kveðjur,

Einar
——————————————————————

From: Lára V. Júlíusdóttir <lara@ll3.is>
Date: 2011/1/6
Subject: RE: Samskipti setts saksóknara við Alþingi
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>

Sæll Einar

Mér er ekki kunnugt um það.

Kv.

Lára V.
——————————————————————
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/1/6
Subject: Re: Samskipti setts saksóknara við Alþingi
To: „Lára V. Júlíusdóttir“ <lara@ll3.is>

Sæl enn,

Er eftirfarandi þá rangt?:

Sakborningurinn heitir A.  B, faðir hans, er sonur C af fyrra hjónabandi. Síðari eiginmaður C var D faðir Láru Valgerðar.

Kveðja,
Einar
——————————————————————
From: Lára V. Júlíusdóttir <lara@ll3.is>
Date: 2011/1/6
Subject: RE: Samskipti setts saksóknara við Alþingi
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>

Sæll Einar

Þetta er allt rétt

Mér var þetta ekki ljóst, enda ekki í neinum samskiptum við þetta fólk.  Faðir minn lést 1998 og hef ég haft mjög takmörkuð samskipti við konu hans eftir þann tíma, hvað þá börn hennar af fyrra hjónabandi eða afkomendur þeirra.

Lára V.
——————————————————————

From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/1/6
Subject: Re: Samskipti setts saksóknara við Alþingi
To: „Lára V. Júlíusdóttir“ <lara@ll3.is>

Takk fyrir svarið.
Einar
——————————————————————