Karl Th. og Bingi vinur hans

Karl Th. Birgisson skrifaði bloggpistil á Eyjunni skömmu eftir að hann tók við sem ritstjóri.  Pistillinn er í spaugsömum og vingjarnlegum tón, og svo sem gott að vita að Karl geti brugðið fyrir sig þeim betri fæti.    Hann talar kumpánlega um fótboltafréttamanninn Binga, svo kumpánlega að ætla má að þeir séu bestu vinir.  Sem er líka í fínu lagi í sjálfu sér, og það jafnvel þótt maður trúi því að vinir manns segi til um hvers konar manneskja hann sé sjálfur.

Hitt er verra, að það hafa ekki fengist nein svör við þeim spurningum sem margir hafa spurt sig, sumir upphátt, hver verði ristjórnarstefna fótboltafréttamannsins Binga, vinar Karls, en Bingi þessi er titlaður útgefandi Eyjunnar, þótt Karli virðist hugnast betur fótboltafréttamannstitillinn, enda mun krúttlegri.

Í gær fékkst e.t.v. svar við þessari spurningu að hluta, þegar slúðurmeistarinn Eiríkur Jónsson, og Facebookvinateljarinn Jakob Bjarnar Grétarsson voru kynntir sem „Öflugur liðsauki Eyjunnar“.  Gott væri að fá á hreint  hvort þessi liðsauki lýsi því liði sem ætlunin er að byggja upp, fremur en „gamla liðið“ á Eyjunni.  Alveg sérstaklega er ástæða til að hafa í huga að á þeim stalli sem Eiríkur og Jakob standa nú var áður blogg Láru Hönnu Einarsdóttur, sem óhætt er að segja að hafi verið með öðrum blæ en hjá nýliðunum tveim.  Að ekki sé nú minnst á innihaldið.

Vegna slæmrar reynslu landsmanna af eignarhaldi og stjórn braskara af ýmsu tagi á fjölmiðlum, og af því að Björn þessi Ingi (sem Karli Th. finnst óþarfi að verið sé að röfla mikið um) hefur verið bendlaður við fjármálagjörninga sem hafa á sér oggulítið vafasamt yfirbragð, þá væri líka við hæfi að maðurinn sá gerði hreint fyrir sínum dyrum, svo lesendur Eyjunnar viti hverra hagsmuna hann hefur að gæta í þeirri umræðu sem vonandi visnar ekki strax, þ.e.a.s. um hvernig eigi að taka á þeim sem léku umtalsverð hlutverk í því geðveika sukki sem setti landið á hausinn og fjölda saklauss fólks á vonarvöl.

Sé Bingi vinur Karls Th. að mestu saklaus af því að vera hrunvaldur eða samsekur þeim væri gott að vita það, og fá nægar upplýsingar til að lesendur geti metið það sjálfir.  Sama gildir auðvitað um Róbert Wessman, sem er líka orðinn einn eigenda Eyjunnar, að maðurinn sá hefur, meðal annars af Eyjunni, verið bendlaður við ýmislegt vafasamt í tengslum við hið svokallaða hrun.  Ekki væri úr vegi að Eyjan segði frá stöðu  hans mála, þar sem hún er nú orðin háð vilja hans sem eiganda.

Sem sagt, sleppum röflinu í bili, Karl, en tölum í staðinn tæpitungulaust um fortíð þeirra manna sem þú hefur nú ráðið þig til að þjóna.  Það mætti t.d. gera með ítarlegri úttekt á starfsemi Björns Inga Hrafnssonar og Róberts Wessman síðustu 5-6 árin.  Slíkt myndi taka af allan vafa um að þú vildir láta líta á þig sem sjálfstæðan ritstjóra með bein í nefinu og fréttamannsheiðurinn í fyrirrúmi.  Á því er ekki vanþörf í þessu hrunda landi.  Að því loknu væri gaman að lesa fleiri pistla frá þér í spaugsama tóninum.