Enn hefur varla verið réttað yfir nokkrum af þeim sem ábyrgð bera á hruninu. Í næstu viku fer hins vegar fram aðalmeðferð í Nímenningamálinu svokallaða. Það er ömurlegur vitnisburður um íslenska réttarríkið, því hér er fyrir rétti fólk sem mótmælti (friðsamlega) í kjölfar hrunsins. Það er ákært fyrir glæp sem aldrei var framinn, en saksóknari krefst þungra fangelsisdóma yfir því fyrir þessar tilbúnu sakir. Hér eru ýmsar upplýsingar um málið, en þetta er í stuttu máli það sem gerðist:
Þann 8. desember 2008 gekk hópur fólks inn í Alþingishúsið til að fara á þingpalla. Af þeim sem komust á pallana tókst tveimur að hrópa örfá orð að þingmönnum. Af þeim fjölda manns sem var viðstaddur voru níu ákærðir fyrir ýmis brot í tengslum við þetta. Þessir níu virðast hafa verið valdir af handahófi. Stimpingar urðu milli starfsmanna Alþingis og þeirra sem inn vildu, og var staðhæft að einhver Nímenninganna hefði hrint starfsmanni þingsins þannig að hann slasaðist. Síðar kom í ljós, í myndupptökum sem sýndar voru í sjónvarpi, að þessi staðhæfing var röng.
Málið var kært til lögreglu, sem rannsakaði það, og komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að ekki bæri að kæra á grundvelli 100. greinar almennra hegningarlaga, en skrifstofustjóri Alþingis hafði nefnt hana í bréfi til lögreglunnar. Eftir að ríkissaksóknari hafði verið úrskurðaður vanhæfur til að fjalla um málið var Lára V. Júlíusdóttir sett ríkissaksóknari í málinu. Í trássi við niðurstöðu lögreglurannsóknarinnar ákvað hún að ákæra á grundvelli 100. greinar, auk annarra. M.a. fór hún fram á það í tölvupósti til skrifstofustjóra Alþingis að kært yrði fyrir brot á 231. grein hegningarlaga, þ.e.a.s. fyrir „húsbrot“, því ekki væri hægt að ákæra fyrir slíkt nema fram kæmi kæra frá brotaþola, þ.e.a.s. Alþingi. Um þann hluta málsins mun ég fjalla síðar hér.
Þessi 100. grein almennra hegningarlaga hljóðar svo: „Hver, sem ræðst á Alþingi, svo að því eða sjálfræði þess er hætta búin, lætur boð út ganga, sem að því lýtur, eða hlýðir slíku boði, skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár, og getur refsingin orðið ævilangt fangelsi, ef sakir eru mjög miklar.“ Þessi hörðu viðurlög stafa af því að hér er átt við tilraunir til valdaráns, eins og ljóst verður ef lesið er lagafrumvarpið frá því að þessi lög voru sett (1940), og af því samhengi sem þau tilheyra, þ.e.a.s. XI. kafla almennra hegningarlaga, en yfirskrift hans er Brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og er þar meðal annars fjallað um uppreisnir, morð á forsetanum og hryðjuverk. Að halda því fram að Nímenningarnir (og allur sá fjöldi fólks sem þeir voru hluti af) hafi ætlað að svipta Alþingi „sjálfræði“ þess, hvað þá að þeir hefðu getað gert eitthvað slíkt, væri hlægilegt ef ekki væri um svo alvarlega ákæru að ræða. Undir henni hafa Nímenningarnir þurft að sitja í bráðum ár, og eyða ómældum tíma í að verja sig, svo ekki sé minnst á það andlega álag sem það er að sitja undir ákæru um alvarlegan glæp, og geta á meðan engar áætlanir gert um framtíð sína.
Þótt fólk hafi ólíkar skoðanir á þessu máli hefur nánast enginn treyst sér til að verja þá ákvörðun Láru V. Júlíusdóttur að ákæra fyrir brot á 100. greininni. Fjöldi manns, þar á meðal hópur alþingismanna, hefur hins vegar mótmælt þessu harðlega. Hér er nefnilega um að ræða svívirðilega aðför ríkisvaldsins að saklausu fólki, og hins vegar alvarlega árás á frelsið til að mótmæla.
Alþingi ber mikla ábyrgð í þessu máli, og sorglegt að það skuli ekki frekar vera í fararbroddi við að vernda tjáningarfrelsið. Það er þó settur saksóknari, Lára V. Júlíusdóttir, sem ber höfuðábyrgðina. Hún ætti að afturkalla ákærurnar áður en það er orðið of seint, þ.e.a.s. áður en aðalmeðferðin hefst. Geri hún það ekki mun hún vinna ljótt skemmdarverk á íslensku réttarfari (og eigin lögmannsheiðri), því jafnvel þótt sýknað verði er það ófyrirgefanleg árás á saklaust fólk að ákæra það fyrir alvarlegan glæp sem aldrei var framinn.