Í desember sendi ég forseta Alþingis, Ástu R. Jóhannesdóttur, tölvupóst þar sem ég bað hana að staðfesta að afrit sem ég hafði af tölvupósti hennar til Jóns Ólafssonar prófessors á Bifröst, um Nímenningamálið, væri rétt. Ég sagði henni að ég hygðist fjalla um Nímenningamálið á opinberum vettvangi. Ég mun síðar fjalla um póst Ástu til Jóns, og þátt hennar í Nímenningamálinu. Ég fékk ekkert svar frá Ástu, en þann 3. janúar fékk ég hins vegar póst frá Helga Bernódussyni, skrifstofustjóra Alþingis, þar sem hann tekur að sér að „verja“ Ástu.
Meðal þess sem Helgi segir í pósti sínum, án þess að ég hafi minnst á það einu orði við hann eða Ástu, er eftirfarandi:
Lögreglan tók við málinu. Hún lauk rannsókn á því og sendi það áfram til saksóknara án þess að það væri nokkuð rætt við þingið eða því skýrt frá framvindu málsins. Saksóknari gaf síðan út ákæru á hendur níu einstaklingum; að sjálfsögðu án nokkurs samráðs við þingið eða skrifstofu þess, né með vitneskju þeirra, enda hefði slíkt talist lögbrot.
Þetta er athyglisvert, því staðreyndin er að saksóknari sendi skrifstofustjóra póst 18. febrúar 2010 þar sem hún beinlínis bað um að Alþingi kærði fyrir brot á tiltekinni lagagrein (um „húsbrot“), því annars væri ekki hægt að ákæra fyrir slíkt brot. Hér er sá póstur (smellið á til að stækka):
Það vekur líka athygli að saksóknari talar við skrifstofustjórann í kunningjalegum tón, en ekki á þeim formlegu nótum sem gera mætti ráð fyrir í pósti af þessu tagi, milli saksóknara og meints brotaþola. Rétt er að geta þess að tengsl Láru við Alþingi eru talsverð, og svo mikil að margir telja að þau geri hana vanhæfa sem saksóknara í málinu. Hún sat á þingi sem varamaður á árunum 1987-90, og hún er kjörin af Alþingi sem formaður bankaráðs Seðlabankans.
Sé staðhæfing skrifstofustjórans rétt, að samráð milli saksóknara og Alþingis varðandi ákærurnar væri lögbrot, þá væri áhugavert að fá útskýringar þeirra beggja á þessum tölvupósti. Þau neituðu reyndar bæði, í póstum til mín, að um nokkurt samráð hefði verið að ræða. Svo að lesendur geti dæmt sjálfir fylgja þau póstskipti hér á eftir. Ég hef enn ekkert svar fengið við síðasta pósti mínum til skrifstofustjórans, þar sem ég fer fram á að fá afrit af öllum samskiptum hans við saksóknarann um málið.
———————————————————————–
———————————————————————–
From: Helgi Bernódusson <hbern@althingi.is>
Date: 2011/1/3
Subject: FW: Bréf þitt til Jóns Ólafssonar
To: „einar@alum.mit.edu“ <einar@alum.mit.edu>
Sæll, Einar,
forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, hefur leyft mér að fylgjast með tölvupóstssendingum ykkar á milli undanfarið. Ég hef lesið póstana en látið kyrrt liggja þótt mér finnist margt skrýtið í þeim.
En nú get ég ekki orða bundist. Það eru ummæli þín um að þú hyggist „fjalla um þátt þinn [þ.e. ÁRJ] í Nímenningamálinu“.
Ástæðan er sú að ÁRJ á engan „þátt“ í „níumenningamálinu“:
1) Hún er ekki upphafsmaður málsins. — Hún var ekki forseti þegar þeir atburðir urðu sem telja má upphaf málsins. Henni hefur verið ókunnugt um það þegar óskað var rannsóknar lögreglu á málinu seint í desember 2008.
2) Hún hefur ekkert aðhafst í málinu. — ÁRJ hefur sem forseti Alþingis ekkert aðhafst í þessu máli annað en reyna að útskýra stöðu þess og feril, bæði á Alþingi (í þingskjölum; tveimur skriflegum svörum), á opinberum vettvangi, í þingflokki sínum og innan síns flokks. Enn fremur tekið við undirskriftalistum.
3) ÁRJ forseti Alþingis getur ekkert aðhafst í þessu máli. — Það er ekki í hennar höndum. Lögreglan tók við málinu. Hún lauk rannsókn á því og sendi það áfram til saksóknara án þess að það væri nokkuð rætt við þingið eða því skýrt frá framvindu málsins. Saksóknari gaf síðan út ákæru á hendur níu einstaklingum; að sjálfsögðu án nokkurs samráðs við þingið eða skrifstofu þess, né með vitneskju þeirra, enda hefði slíkt talist lögbrot.
Og nú er þetta mál fyrir dómstólum. Innanríkisráðherra (áður dómsmálaráðherra) ætlar ekki að hafa af því nein afskipti, þrátt fyrir áskoranir flokksfélaga sinni. Þó ekki væri. Það eru skil milli framkvæmdarvalds og dómsvalds.
Ég undrast mjög hvernig sótt er að forseta Alþingis í þessu máli. Það er algerlega tilefnislaust og ómálefnalegt. — En eru einhverjar aðrar ástæður til þess; ég leyfi mér að spyrja?
Helgi Bernódusson,
skrifstofustjóri Alþingis.
From: Ásta R. Jóhannesdóttir
Sent: 31. desember 2010 00:09
To: Helgi Bernódusson
Subject: FWD: Bréf þitt til Jóns Ólafssonar
--- original message ---
From: "Einar Steingrimsson" <einar@alum.mit.edu>
Subject: Bréf þitt til Jóns Ólafssonar
Date: 30. desember 2010
Time: 20:52:4
Sæl Ásta.
Eftirfarandi póst sendi ég þér fyrir þrem vikum, en hef ekki fengið svar. Þar sem ég hyggst fjalla um þátt þinn í Nímenningamálinu (sem greinilega er annar og meiri en þú lést í veðri vaka þegar þú hringdir í mig 12. nóvember), þá þætti mér vænt um að fá að vita hvort meðfylgjandi afrit af pósti þínum til Jóns Ólafssonar er rétt. Heyri ég ekki frá þér varðandi það mun ég gera ráð fyrir að svo sé.
Ennfremur vil ég auðvitað vita ef þú hefur gefið einhverjar aðrar yfirlýsingar um þetta mál, aðrar en þær sem þú lést senda mér eftir símtal þitt við mig 12. nóv.
Bestu kveðjur,
Einar
———- Forwarded message ———-
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2010/12/8
Subject: Bréf þitt til Jóns Ólafssonar
To: „Ásta R. Jóhannesdóttir“ <arj@althingi.is>
Sæl Ásta.
Ég hef komist yfir afrit af því sem mér er sagt að sé tölvupóstur þinn til Jóns Ólafssonar um nímenningamálið. Þar sem ég hyggst halda áfram að beita mér opinberlega í þessu máli vil ég spyrja þig hvort þetta afrit sé rétt, svo ég eigi ekki á hættu að fara með rangt mál um þig í fjölmiðlum.
Sé þetta ekki rétt afrit fer ég fram á að fá rétt afrit frá þér.
Virðingarfyllst,
Einar Steingrímsson
———————————————————————–
From: Ásta R. Jóhannesdóttir <arj@althingi.is<mailto:arj@althingi.is>>
Date: 17. maí 2010 15:14:40 GMT+03:00
To: Jón Ólafsson <jonolafs@bifrost.is<mailto:jonolafs@bifrost.is>>
Subject: RE: netfang
Sæll Jón,
Í framhaldi af samtali okkar. Sent til upplýsingar. Bkv. ÁRJ
Umfjöllun um málaferli gegn svokölluðum 9 menningum er á algjörum villigötum.
Staðreyndir eru þessar:
8. desember 2008 ræðst hópur fólks inn í Alþingishúsið bakdyrameginn, beitir þingverði ofbeldi til að komast upp á þingpalla, – yfirbugar þá og slasar starfsfólk þingsins.
Atburðir þessir koma greinilega fram á upptöku í öryggismyndavél.
Nokkru seinna óskar skrifstofustjóri Alþingis, yfirmaður starfsmannanna skv. lögum, eftir því í bréfi til lögreglustjóra að rannsókn fari fram á atvikinu.
Málið var rannsakað hjá lögreglu sem sendi það ríkissaksóknara til afgreiðslu.
Í kjölfarið ákveður ríkissaksóknari að kæra einstaklinga sem hlut áttu í málinu og ollu meiðslum á starfsfólkinu. Kröfur eru um skaðabætur og miskabætur. Einn starfsmanna fær örorkumat.
Þegar ráðist var inn í þinghúsið var Sturla Böðvarsson forseti Alþingis. Hann hafði ekki bein afskipti af þessu máli. Síðar tók Guðbjartur Hannesson við því embætti og þremur mánuðum síðar, tæpu hálfu ári eftir atvikið, undirrituð, Ásta R. Jóhannesdóttir. Það er því út í hött að halda því fram að núverandi forseti Alþingis hafi kært nokkurn mann enda ekki í verkahring þingforseta.
Það er algerlega óeðlilegt að forseti Alþingis, Alþingi eða alþingismenn hafi afskipti (t.d. með ályktunum) af máli sem er til meðferðar hjá dómstólum. Þrískipting ríkisvaldsins er skýr. Ríkissaksóknari er enn fremur sjálfstæður í störfum sínum og á ekki að taka við fyrirmælum alþingismanna um þau. Í niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er einmitt gagnrýnt harðlega hvernig stjórnmálamenn hafa haft áhrif á dómsvaldið.
Við verðum að treysta dómstólum til að komast að réttri niðurstöðu.
———————————————————————–
———————————————————————–
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/1/3
Subject: Re: FW: Bréf þitt til Jóns Ólafssonar
To: Helgi Bernódusson <hbern@althingi.is>
Sæll Helgi,
1) Hún er ekki upphafsmaður málsins. — Hún var ekki forseti þegar þeir atburðir urðu sem telja má upphaf málsins. Henni hefur verið ókunnugt um það þegar óskað var rannsóknar lögreglu á málinu seint í desember 2008.
Skil ég rétt að þú, sem skrifstofustjóri Alþingis, hafir óskað rannsóknar? Er það líka rétt að þú hafir nefnt að 100. grein almennra hegningarlaga gæti átt við í þessu máli?
3) ÁRJ forseti Alþingis getur ekkert aðhafst í þessu máli.
Geturðu útskýrt fyrir mér af hverju forseti Alþingis getur ekki aðhafst í málinu? Ef Alþingi (einhverjir starfsmenn þess) hafa farið fram á rannsókn á málinu, væri ekki eðlilegt að forseti Alþingis gæti, sem æðsti yfirmaður skrifstofu þingsins, komið á framfæri upplýsingum varðandi hluti sem snerta rannsókn málsins?
Lögreglan tók við málinu. Hún lauk rannsókn á því og sendi það áfram til saksóknara án þess að það væri nokkuð rætt við þingið eða því skýrt frá framvindu málsins. Saksóknari gaf síðan út ákæru á hendur níu einstaklingum; að sjálfsögðu án nokkurs samráðs við þingið eða skrifstofu þess, né með vitneskju þeirra, enda hefði slíkt talist lögbrot.
Skil ég rétt að (settur) saksóknari hafi ekkert rætt við þingið eða skrifstofu þess varðandi ákærurnar á hendur þessum níu einstaklingum?
Og nú er þetta mál fyrir dómstólum. Innanríkisráðherra (áður dómsmálaráðherra) ætlar ekki að hafa af því nein afskipti, þrátt fyrir áskoranir flokksfélaga sinni.
Hefur þú upplýsingar um fyrirætlanir innanríkisráðherra í þessu máli sem ekki hafa komið fram opinberlega? Ef ekki, hvar hafa þessar upplýsingar komið fram?
Ég undrast mjög hvernig sótt er að forseta Alþingis í þessu máli. Það er algerlega tilefnislaust og ómálefnalegt. — En eru einhverjar aðrar ástæður til þess; ég leyfi mér að spyrja?
Ég skil ekki hvað þú átt við hér. Hvaða ástæður gætu það verið? Við hverja áttu sem sótt hafi að forseta Alþingis? Mig? Einhverja fleiri?
Með kveðju,
Einar Steingrímsson
———————————————————————–
———————————————————————–
From: Helgi Bernódusson <hbern@althingi.is>
Date: 2011/1/3
Subject: RE: FW: Bréf þitt til Jóns Ólafssonar
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Sæll, Einar,
ég held það hafi ekkert upp á sig að halda þessu þrefi áfram.
En ég vil þó segja þetta, í tilefni þessa síðasta pósts frá þér:
– Það er rétt að lögregla og saksóknari tóku algerlega sjálfstæðar ákvarðanir í þessu máli. Þær voru með engu móti bornar undir okkur hjá Alþingi; við vissum ekki af málinu fyrr en ákæra var gefin út. — Sem eru algerlega eðlileg vinnubrögð í réttarríki.
– Um fyrirætlanir innanríkisráðherra hef ég enga upplýsingar nema bara það sem sagt hefur verið í fréttum fjölmiðla.
– Um sífellda gagnrýni á forseta Alþingis út af þessu máli veit ég heldur ekkert; ég bara undrast hana því að hún er fullkomlega óréttmæt.
Helgi Bernódusson,
skrifstofustjóri Alþingis.
———————————————————————–
———————————————————————–
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/1/5
Subject: Re: FW: Bréf þitt til Jóns Ólafssonar
To: Helgi Bernódusson <hbern@althingi.is>
Sæll aftur Helgi.
Saksóknari gaf síðan út ákæru á hendur níu einstaklingum; að sjálfsögðu án nokkurs samráðs við þingið eða skrifstofu þess, né með vitneskju þeirra, enda hefði slíkt talist lögbrot.
Ef til vill hef ég misskilið eitthvað, en upplýsingar sem ég hef fengið virðast stangast á við ofangreint. Geturðu staðfest að ekki hafi átt sér stað nokkur samskipti milli þingsins eða skrifstofu þess annars vegar, og (setts) saksóknara hins vegar?
Hafi hins vegar átt sér stað slík samskipti fer ég þess á leit að fá afrit af þeim.
Með kveðju,
Einar
———————————————————————–
———————————————————————–
From: Helgi Bernódusson <hbern@althingi.is>
Date: 2011/1/5
Subject: RE: FW: Bréf þitt til Jóns Ólafssonar
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Sæll, Einar,
nei, engin samskipti. Settur saksóknari kom einu sinni í vettvangs-athugun í þinghúsið; til að átta sig á aðstæðum. Það er allt og sumt.
– Helgi Bernódusson.
———————————————————————–
———————————————————————–
From: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Date: 2011/1/12
Subject: Re: FW: Bréf þitt til Jóns Ólafssonar
To: Helgi Bernódusson <hbern@althingi.is>
Sæll Helgi.
Í pósti til mín þann 3. janúar sagðir þú eftirfarandi:
3) ÁRJ forseti Alþingis getur ekkert aðhafst í þessu máli. — Það er ekki í hennar höndum. Lögreglan tók við málinu. Hún lauk rannsókn á því og sendi það áfram til saksóknara án þess að það væri nokkuð rætt við þingið eða því skýrt frá framvindu málsins. Saksóknari gaf síðan út ákæru á hendur níu einstaklingum; að sjálfsögðu án nokkurs samráðs við þingið eða skrifstofu þess, né með vitneskju þeirra, enda hefði slíkt talist lögbrot.
Samt skilst mér að settur saksóknari hafi skrifað þér og beðið um kært yrði fyrir húsbrot í tengslum við atburðina 8. des. 2008. Er það rétt, og ef svo er, telurðu að þar hafi hvorki verið um „samráð“ né „vitneskju“ að ræða?
Með kveðju,
Einar
———————————————————————–
———————————————————————–
From: Helgi Bernódusson <hbern@althingi.is>
Date: 2011/1/12
Subject: RE: FW: Bréf þitt til Jóns Ólafssonar
To: Einar Steingrimsson <einar@alum.mit.edu>
Sæll, Einar.
Nei, þetta er alger misskilningur. Settur saksóknari hefur ekkert bréf skrifað til okkar; hvað þá að hann hafi „beðið“ um eitt eða annað í þessu máli. Afskiptum okkar lauk um 20. des. 2008 með bréfi mínu til lögreglunnar um rannsókn á þessum atburðum. Löngu, löngu síðar kom settur saksóknari að málinu. – Og hann biður ekki um eitt né neitt; hann er algerlega sjálfstæður í störfum sínum, metur lögregluskýrslur og ákveður um ákærur. Mér væri að lögum bannað að hafa af því nokkur afskipti.
– Helgi Bernódusson.
———————————————————————–
———————————————————————–
From: Helgi Bernódusson
Date: 2011/1/12
Subject: Ég er ekki lítið undrandi
To: Einar Steingrimsson
Sæll, Einar,
ég var ekki lítið undrandi þegar mér var bent á það nú í kvöld að þú hefðir birt grein í Fréttablaðinu í morgun þar sem þú berð á mig alvarlegar sakir sem þér mátti vera ljóst þá að væru á engum grunni reistar, þ.e. að ég hefði orðið við „pöntun“ setts saksóknar og skrifað kæru á fólk (sem ég þekki ekki og veit ekki hverjir eru) um húsbrot. Slíkt væri margfalt lagabrot og fullkomin skrumskæling á réttarfari í landinu. Síðar á deginum fékk ég fyrirspurn frá þér um þetta mál sem ég svaraði alveg grandalaus og af fyllstu samviskusemi.
Þessar getsakir í greininni eru tilæfulausar með öllu eins og kemur fram í svari mínu. – Þetta er nú til dags kallað að skjóta fyrst og spyrja svo.
Ég fer fram á það að þú birtir leiðréttingu á þessari staðhæfingu þinni og biðjist afsökunar á þessum vinnubrögðum.
Helgi Bernódusson.
———————————————————————–
———————————————————————–
From: Einar Steingrimsson
Date: 2011/1/13
Subject: Re: Ég er ekki lítið undrandi
To: Helgi Bernódusson
Sæll Helgi.
Ég hef undir höndum tölvupóst sem Lára V. Júlíusdóttir sendi þér 18. febrúar sl., þar sem hún segir:
Sæll Helgi
Get ég fengið frá þér f.h. skrifstofu Alþingis, skriflega staðfestingu á því að kært sé fyrir húsbrot, þ.e. 231. gr. alm. hegn. Þetta kemur ekki alveg skýrt fram í bréfinu frá þinginu 19. des.,, en til að hægt sé að ákæra vegna þessa brots þarf það að hafa verið kært.
Kv.
Lára V.
Ég fæ ekki betur séð en að hér sé saksóknari að biðja um að kært verði fyrir húsbrot. Ég veit auðvitað ekki hverju þú svaraðir, en ég fer hér með fram á að fá afrit af öllum samskiptum þínum við settan saksóknara varðandi þetta mál.
Með kveðju,
Einar
———————————————————————–
———————————————————————–
Hér á eftir fara póstskipti mín við settan saksóknara, Láru V. Júlíusdóttur:
———————————————————————–
———————————————————————–
From: Einar Steingrimsson
Date: 2011/1/5
Subject: Samskipti setts saksóknara við Alþingi
To: lara@borgarlogmenn.is
Sæl Lára.
Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, skrifaði mér eftirfarandi vegna fyrirspurnar minnar til forseta þingsins (þótt sú fyrirspurn hafi reyndar verið annars eðlis):
Lögreglan tók við málinu. Hún lauk rannsókn á því og sendi það áfram til saksóknara án þess að það væri nokkuð rætt við þingið eða því skýrt frá framvindu málsins. Saksóknari gaf síðan út ákæru á hendur níu einstaklingum; að sjálfsögðu án nokkurs samráðs við þingið eða skrifstofu þess, né með vitneskju þeirra
Getur þú staðfest að þetta sé rétt, þ.e.a.s. „án nokkurs samráðs við þingið eða skrifstofu þess“?
Með kveðju,
Einar Steingrímsson
———————————————————————–
———————————————————————–
From: Lára V. Júlíusdóttir
Date: 2011/1/6
Subject: RE: Samskipti setts saksóknara við Alþingi
To: Einar Steingrimsson
Sæll Einar
Já, ég get staðfest þetta, þ.e. þann hluta þess sem að mér snýr.
Kv.
Lára V. Júlíusdóttir hrl.
———————————————————————–
———————————————————————–