Alvarlegar fréttir dynja á landsmönnum þessa dagana. Í ónotuðu herbergi í Alþingishúsinu fannst tölva, sem enginn kannast við að eiga. Á henni fannst ekkert; hún var tóm, nema hvað á henni voru fingraför sem tilheyra starfsmanni þingsins. Því þykir ljóst að einhver allt önnur manneskja hljóti að hafa komið henni fyrir í húsinu, og augljóslega til að njósna, þótt starfsmenn þingsins segi reyndar að ekki virðist hafa tekist að komast í nein gögn. Ekki var heldur útskýrt af hverju tölva inni í húsinu ætti auðveldara með að komast í gögn þingmanna en tölva tengd internetinu svonefnda, sem grunur leikur á að Alþingi tengist.
Þessar ógnvekjandi fréttir urðu til þess að forseti þingsins, Ásta R. Jóhannesdóttir, rauf þagnarbindindið sem hún hefur verið í síðan hún komst að þeirri niðurstöðu að hún mætti ekki tjá sig um tiltekið dómsmál (sem svo furðulega vildi til að var í hámarki nákvæmlega daginn sem tilkynnt var að tölvan hefði fundist (hún fannst að vísu ellefu mánuðum áður)), líklega af því að hún var þegar búin að tjá sig um málið og lýsa yfir að þetta fólk sem hún mátti ekki tjá sig um hefði slasað starfsmenn Alþingis. Sem hún gerði löngu eftir að starfsmenn þingsins voru búnir að eyða öllum upptökum úr myndavélum hússins, nema þeim sem þeim þóttu nógu áhugaverðar. Reyndar hafði þeim láðst að athuga að í upptökunum sem þeim fundust svo skemmtilegar kom í ljós að forseti þingsins fór með rangt mál. Sem er víst lenska í húsinu, því skrifstofustjórinn hefur líka verið í þagnarbindindi síðan í ljós kom að hann fór frjálslega með staðreyndir (svo maður tali nú ekki á ruddalegri nótum) varðandi hegðan sína í þessu sama dómsmáli, sem hann hafði, í stundarheiðarleika, úrskurðað með öllu ólöglega.
Yfirlýsing þingforsetans var snilldarlega umskrifuð tilvitnun í orð Bandaríkjaforseta eftir árásina á Pearl Harbor, enda tilefnið álíka alvarlegt, nefnilega fundur munaðarlausrar tölvu í þinghúsinu: „Nú verðum við að horfast í augu við það að við búum í breyttum heimi.“
Einhverjir fréttamenn sögðu líka frá því að lögreglan hefði engan grunaðan. Þess var ekki getið um hvað sá grunur snerist sem enginn lá undir.