Þessi færsla er hluti af pistlaröð.
Í fyrri pistlum talaði ég um hugmyndirnar um hið yfirskilvitlega og hugmyndina um Guð sem er í senn almáttugur, alvitur og algóður. Andlegur, hugsandi og persónulegur Guð er einnig þversögn því hugsun og tilfinningar eru náttúrulegs eðlis.
Vera sem ekki er efnisleg getur ekki hugsað
Engin hugsun á sér stað án heilastarfsemi. Ef Guð er ekki efnislegur þá getur hann ekki hugsað, skipulagt og myndað sér skoðanir.
Tilfinningar eru einnig bundnar náttúrulögmálum og reynslu mannsins. Við reiðumst vegna þess að einhver brýtur gegn réttlætiskennd okkar eða vegna þess að okkur líður líkamlega illa.
Vanlíðan orsakar líkamleg viðbrögð, svosem aukið adrenalínflæði. Ef okkur er gefið adrenalín bregst líkaminn við eins og við værum mjög áköf eða reið og þá búum við okkur til skýringar, reiðumst t.d. af fáránlegu tilefni. Ef lyfjagjöf er notuð til að koma í veg fyrir þau líkamlegu viðbrögð sem framkalla reiði, þá verðum við ekki reið, þótt við séum órétti beitt. Tilfinningar eru þannig bundnar líkamanum og því ættu líkamslausar verur að vera tilfinningalausar. Það sama á við um hugsun, vilja og áætlun.
Guðdómurinn skýrir ekki siðferðisvitund og menningarþróun
Trúað fólk álítur oftast að hugmyndir okkar um rétt og rangt, gott og illt komi frá Guði. Hann leggi línurnar og sendi okkur fulltrúa sinn til að upplýsa okkur um þau gildi sem við eigum að lifa eftir. Staðreyndin er hins vegar sú að hugmyndir um rétt og rangt eru bundnar því samfélagi sem við lifum í. Menn koma sér saman um lög og reglur vegna þess að lífið er auðveldara án árekstra. Jafnvel trúlausustu samfélög byggja á siðferðilegum gildum.
Siðferðishugmyndir mannsins eru óháðar trúarbrögðum. Þannig áttuðu Bretar og Bandaríkjamenn sig á siðferðilegu gildi þess að leggja niður þrælahald, enda þótt kristindómurinn geri ráð fyrir þrælahaldi. Í dag berjumst við fyrir mannréttindum samkynhneigðra enda þótt engin trúarbrögð mæli með því.
Vísindaleg þekking og ótrúlegar hugmyndir
Trúmenn benda á að það er ekki ýkja langt síðan menn höfnuðu þeirri hugmynd að þung stálflykki gætu svifið um háloftin, einmitt á forsendum eðlisfræðinnar; þetta átti einfaldlega að vera röklega ómögulegt.
Rétt er það og sennilega hefði ég sjálf fyllt flokk þeirra sem töldu smíði flugvélar útilokaða. Mönnum tókst hins vegar að smíða flugvélar og útskýra hvernig þær verka. Útskýringin er fullkomlega náttúruleg þótt hún sé flókin. Sjálfsagt voru til draumóramenn sem töldu sig geta flogið bara af því að það var svo kúl hugmynd en þeir sem náðu árangri höfðu ekki bara trú líka heldur þekkingu sem hægt er að útskýra.
Guðshugmyndin byggir ekki á þekkingu
Guðshugmyndin byggir ekki á þekkingu sem hægt er að deila með öðrum. Hún byggir eingöngu á trú. Hugsanlega tekst mönnum einhverntíma að sýna fram á að til sé ferhyrndur þríhyrningur eða að Guð og andleg lögmál séu til en á meðan engar vísbendingar eru um það finnst trúleysingjanum út í hött að reikna með því.
Við getum aldrei orðið sammála. Hver er Guð? Hvað er Guð? Það er svo einkennilegt að við njótum lista sem beinlínis krefjast þess að við lesum milli línanna, spyrjum okkur hvað er listamaðurinn að segja mér? Hvað þýðir þetta? Hver er boðskapur myndarinnar Run Lola Run, eða The Crying Game etc.? Trúleysingjar aftur á móti gefa engan afslátt þegar Biblían eða önnur trúarrit eru til umræðu. Þá er Biblían lesin og túlkuð bókstaflega, ekkert spáð í veruleika þess tíma þegar hún var skrifuð osfrv.eða hvað er verið að segja okkur. Svo er náttúrulega það að við eigum val. Við grátum og ásökum Guð fyrir slæma hluti sem henda okkur. Við eigum val, en umræðan segir okkur að þó svo ég kjósi að byggja mér heimili í hlíðum Heklu eða labba skreyttur gullkeðjum í gegnum Harlem að kvöldi, þá eigi það að vera í lagi.Ég les Nýja Testamentið og önnur rit (einkanlega austræn). Ég lít þannig á í stuttu máli að Biblían sé leiðarvísir fyrir mig, og þig, persónulega. Leiðarvísir að lífi án skammar og lífi þar sem ég „self-actualize-a.(A. Maslov.) Ég næ með því að lifa samkvæmt lögmálinu að lifa ego-less og í því ástandi þar fer saman hugur og hönd, eða vitund og verund, nirwana.
Hvað er synd? Í stuttu máli er það synd að gera það sem þú veist að þú átt ekki að gera og að gera ekki það sem þú veist að þú átt að gera. Að fara gegn betri vitund. -To thine own self be true…etc Annars er ágæt leið til að skilja Guð og trúna að kíkja á Eckhart Tolle.