Trúleysingjar eða andtrúarsinnar?

Þessi færsla er hluti af pistlaröð.

Trúmenn og trúleysingjar ganga út frá svo ólíkum forsendum að það er nánast útilokað að halda uppi málefnalegri umræðu um trúmál. Hvers vegna erum við þá að reyna að tala saman?

Ég kýs að skipta trúlausu fólki í þrjá hópa. Þetta er vitanlega einföldun og sjálf sveiflast ég á milli flokka. Ég geri þetta aðeins til að skýra hvers vegna trúlausir reyna yfirhöfuð að halda uppi samræðum við trúaða.

Hinir áhugalausu

indexFyrsta flokkinn fylla þeir sem hafa lítinn áhuga á trú og trúarbrögðum. Þeir hafa lítið velt tilvist guðdómsins fyrir sér og er í raun nokk sama hvort og hverju aðrir trúa. Þetta fólk vill kannski spjalla um trúmál í smástund en nennir yfirleitt ekki að ræða þau lengi eða ítarlega.

Margir gera skýran greinarmun á þessu fólki og svonefndum „öfgatrúleysingjum“ sem þrátt fyrir að vera trúlausir hafa brennandi áhuga á trúmálaumræðu. Áhugaleysi um umræðuna segir auðvitað ekkert um það hversu líklegur maður er til að taka trú en ástæðan fyrir því að hinir áhugalausu eru aldrei nefndir öfgamenn er nú sennilega bara sú að hinum trúuðu stendur engin ógn af þeim.

Þeir sem hafa komist að niðurstöðu

Annan flokk skipa þeir sem hafa velt guðshugmyndinni rækilega fyrir sér og komist að þeirri niðurstöðu að hún standist ekki. Þetta fólk getur samt haft fræðilegan áhuga á trúmálum. Við höfum oft gaman af að kynnast því hvernig aðrir hugsa og hvernig þeir sjá veröldina. Okkur geta þótt flippaðar hugmyndir áhugaverðar þótt við samþykkjum þær ekki sem sannleika. Sum okkar hafa líka gaman af því að rökræða og jafnvel þræta þótt það leiði ekki til niðurstöðu. Fólki í þessum flokki finnst oft bara gott mál að annað fólk telji sig eiga í sambandi við yfirnáttúrlegar verur og sæki styrk og huggun í trúna en það hefur sjálft fundið annan vettvang til að sækja huggun og styrk og telur trúna því óþarfa.

Andtrúarsinnar

Í þriðja flokkinn falla þeir sem sumir annálaritarar myndu kalla andtrúarsinna. Þetta er fólk sem telur trúarhugmyndir og trúarbrögð vera skaðleg. Þetta fólk er ekki aðeins trúlaust sjálft, það vill líka bjarga öðrum frá vanþekkingu og valdníðslu sem á sér stað í skjóli trúfélaga.

Það er skiljanlegt að trúuðu fólki finnist stundum á sig ráðist þegar trúleysingjar af þessu tagi fjalla um trú og trúarbrögð því þeir leggja gjarnan áherslu á allt hið neikvæða sem gert hefur verið í nafni trúar. Þessu fólki gengur þó ekkert illt til. (Auðvitað eru til öfgamenn í þessum hópi eins og öllum öðrum en ég hef ekki orðið þeirra vör á annal.is) Markmið þessa fólks er aðeins að uppræta kúgun og fordóma. Og trúað fólk hugsar reyndar alveg eins þegar Guð er ekki að trufla það.

 

2 thoughts on “Trúleysingjar eða andtrúarsinnar?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.