Ég stend í eilífu stríði við pöddur og vírusa og hef því verið að hugsa um að fá mér Makka, sem ku víst ekki vera jafn lúsasækinn. Bar málið undir tölvugúrú tilveru minnar um daginn og það var engu líkara en að ég hefði Sússað í návist kaþólskrar nunnu. Jújú, hann skrifar svosem alveg undir að þar sem ég noti tölvur svo til eingöngu til ritvinnslu og geri fátt annað á netinu en að blogga, lesa blöðin og skrifa tölvupóst, þá geti Makkinn svosem dugað en Pésinn sé samt sem áður einfaldlega betri. Hvað það merkir er hinsvegar eitthvað óljóst. Hann heldur því líka fram að þótt Makkinn sýkist síður þá geti það alltaf gerst og það sé bara meiri háttar aðgerð að laga það.
Ég hef ekki heyrt neinar sjúkrasögur af Makkatölvum en ég þekki heldur engan sem notar Makka. Hef grun um að þessi andúð vinar míns á Makkanum eigi meira skylt við trúarbrögð en reynslu en velti því líka fyrir mér hvernig standi á því að Pésinn, iðandi af ógeðspöddum, sé svona miklu vinsælli. Er það vegna tölvuleikjafíknarfjandans eða er hann „einfaldlega betri“? Viðbrögð óskast.
———————————————
neibb, hann er ekki – einfaldlega betri. Ég er reyndar Makkamegin í trúarbrögðunum, þannig að það er kannski ekki alveg að marka mig. En það er hægt að gera allt á Mac sem þú getur gert á PC, OSX stýrikerfið er gífurlega stabílt (aldrei frosið hjá mér) og ég hef heldur aldrei fengið lús.
Jú, það eru til heldur fleiri tölvuleikir fyrir PC. Miklu fleiri, reyndar.
En ef þú verður áfram á PC myndi ég ráðleggja þér að fá þér Linux og Ubuntu, frekar en Windows. Og alls alls ekki Vista…
Posted by: hildigunnur | 2.02.2007 | 8:54:31
———————————————
Það er endalaus hægt að rífast um hvað er betra í þessum efnum en þetta snýst meira um smekk. Það er ef þú ætlar bara að nota tölvu til einfaldari verka heimavið. Þeir sem hafa fengist við að reka netkerfi líta hins vegar flestir á makka sem verkfæri djöfulsins. Ég held samt að flestir sem kaupa sér makka í dag geri það vegna þess að þeim finnst hann flottari útlitslega og að það sé meira hipp og kúl að vera með makka á kaffihúsum. Það er að vísu algjör misskilningur. Búðu þig undir að tölvuvinur þinn tali aldrei aftur við þig ef þú kaupir þér makka, amk ekki um tölvur.
Posted by: Hugz | 2.02.2007 | 9:23:09
———————————————
heh, hvoru megin er nú Hugz 😉
ég á n.b. ekki makka út af útlitinu. Á ekki einu sinni fartölvu og hef aldrei átt.
og þetta með smekkinn, jú, ef þú hefur smekk fyrir lúsum…
Posted by: hildigunnur | 2.02.2007 | 9:43:21
———————————————>
Það er einfalt að setja Pétur upp þannig að maður sleppi við vírusa.
Ég hef aldrei lent í veseni með vírusa eftir að ég setti tölvuna upp eðlilega (snýst aðallega um að hindra sem mest aðgang microsoft að netinu)
Posted by: Langi Sleði | 2.02.2007 | 10:04:56
———————————————
Hehe .. ég er nú ekkert að fela að ég er „réttu megin“.
Annars er með vírusa eins og kynsjúkdóma. Maður getur varist þeim með því að a) stunda ekki kynlíf (eiga makka) eða b) verja sig (nota vírusvörn) og vera ekki með hverjum sem er (samþykkja ekki allt sem vill keyra upp á tölvunni)
Posted by: Hugz | 2.02.2007 | 10:16:19
———————————————
Ég hef aldrei skilið til hvers Microsoft Windows er annars en að fylla vasa Bill Gates. Þetta er gersamlega ónothæft kerfi á allan hátt, algerlega óskiljanlegt helstu sérfræðingum (það veit enginn hvað gerist undir húddinu), órökrétt á allan hátt og fullkomlega notendafjandsamlegt, fyrir utan að öryggi er ekki til í því nema sem árleg fréttatilkynning frá Microsoft í 10 undanfarin ár um að „nú séu þeir farnir að taka öryggismálum alvarlega.“ Eftir sem áður er það hannað til að vera óöruggt.
Já, og svo fylgja engin forrit með Microsoft Windows nema Freecell, Wordpad og Notepad. Og þarna pinball spilið og Hearts. Fleira man ég ekki.
Ég hef einungis notað Linux í rúmlega 10 ár. Ég gæti samt vel hugsað mér að nota MacOS X.
Posted by: Elías | 2.02.2007 | 10:17:07
———————————————
Af hverju nota allir sem ég þekki windows ef það er svona ómögulegt? Bara af því að allir hinir gera það?
Posted by: Eva | 2.02.2007 | 10:27:21
———————————————
góð markaðssetning. Einfalt.
Posted by: hildigunnur | 2.02.2007 | 10:40:24
———————————————
já og Hugz, ég held sveimérþá að Elías reki netkerfi…
Posted by: hildigunnur | 2.02.2007 | 10:41:58
———————————————
Það nota allir MS-Windows vegna þess að IBM samdi við Microsoft um að nota PC-DOS í IBM-PC tölvurnar árið 1980.
Þetta var alger tilviljun að Microsoft urðu fyrir valinu. IBM var hins vegar stærsta tölvufyrirtæki heims, en hafði ekki áður komið nálægt einkatölvubransanum.
Nýja kerfið hlaut nær einróma fordæmingu allra tölvufróðra manna. Hins vegar tóku flestöll fyrirtæki það upp, enda var IBM hið viðurkennda tölvufyrirtæki viðskiptageirans.
Við þetta náðu Microsoft tangarhaldi á markaðnum sem þeir hafa aldrei látið eftir. Fljótlega fór að bera á því að forrit og kerfi samkeppnisaðila unnu illa með kerfum Microsoft. Allt var það með ráðum gert, en samt tókst Microsoft að koma þeirri hugmynd að hjá fólki að ósamhæfnin væri alltaf einhverjum öðrum að kenna.
Tölvur sem byggja að stofni til á IBM-PC hönnuninni eru framleiddar í mestu upplagi og eru því ódýrastar; þær eru líka framleiddar af mörgum samkeppnisaðilum.
Hins vegar hafa þær allar það sameiginlegt að með þeim fylgir eintak af Microsoft Windows. Þetta er ekki vegna þess að framleiðendur vilja það, heldur vegna þess að Microsoft hefur tjáð þeim að Windows muni ekki virka svo vel með þeirra tölvum ef þeir hætta að láta Windows fylgja með.
Posted by: Elías | 2.02.2007 | 10:58:37
———————————————
Hefði kannski átt að segja Microsoft netkerfi. Þarna er hins vegar komin enn ein tegundin : Linux notendur. Þeir falla undir BDSM í kynlífs-stýrikerfa skilgreiningunni minni 😉
Posted by: Hugz | 2.02.2007 | 11:00:49
———————————————
Ég tel það vera siðferðislega ámælisvert að nota Microsoft Windows.
Posted by: Elías | 2.02.2007 | 15:05:53
———————————————
Enn ein ástæða fyrir því hve margir nota Windows er sú að mikið af fólki veit ekki að stýrikerfi komi í fleiri bragðtegundum. Mjög margir vita ekkert hvað stýrikerfi er yfirleitt.
Og athugasemdin „Þeir sem hafa fengist við að reka netkerfi líta hins vegar flestir á makka sem verkfæri djöfulsins.“ stenst ekki að mínu viti.
Mér sýnist hins vegar vænn slatti af kerfisstjórum vera til sem kunna bara á eitt kerfi (Windows) og vilja af einhverjum ástæðum halda sig við það og ekki vita af neinu öðru.
Kerfisstjórar er hins vegar ansi misleitur hópur og eftir minni bestu vitneskju segir þetta starfsheiti ekkert um kunnáttu viðkomandi.
Ég játa fúslega að reynsla mín af Linux er takmörkuð. Ég hef áhuga á að bæta úr því en er bara of latur og með margt annað svona fikt á könnunni.
Tölvur í dag finnst mér almennt alls ekki nógu notendavænar. Þetta á líka við um Mac OS X en þó finnst mér himinn og haf á milli OS X og Windows. Ætli ég noti ekki Makka því mér finnst þeir skástir og vegna þess að Apple hefur klassa. Microsoft hefur Ballmer…
Ef viðkomandi þarf ekki að nota sérhæfðan hugbúnað sem útilokar það mæli ég alltaf með Makka við fólk. Á því eru samt undantekningar.
Vélbúnaðarnördar sem pæla bara í leikjum losna t.d. alveg við ráðleggingar frá mér. Ég set bara upp smug superiority svipinn og geri grín að þeim.
Svo er alltaf hægt að setja upp Windows á Makkann (ugh…) og spila leiki þannig. Mér finnst það samt ekki smart lausn. Játa samt að þegar ég fæ mér Intel Makka muni ég líklega prófa að setja upp Windows á henni. Bara að skrifa þetta veldur mér samt ógleði…
Posted by: Kalli | 2.02.2007 | 15:23:18
———————————————
ég er hætt við að setja Windows upp á minni. Krakkarnir eiga PlayStation og það nægir leikjaþörfinni; annað þarf ég ekki Windows í.
Posted by: hildigunnur | 2.02.2007 | 15:34:31
———————————————
Best að þrengja skilgreininguna enn frekar : „Þeir sem bera ábyrgð á rekstri netkerfa hjá fyrirtækjum“. Nema það sé auglýsingastofa. Eða eitthvað artýfartý.
Og það er bara fínt að reka Windwos net og almennt ágætt að nota Windows stýrikerfi. En maður verður náttúrulega að kunna almennilega á þetta.
Posted by: Hugz | 2.02.2007 | 16:55:24
———————————————
jamm, einmitt munurinn. Maður þarf nefnilega ekki að kunna neitt sérlega vel á Makkann til að keyra hann. Og fær samt ekki vírus.
Posted by: hildigunnur | 2.02.2007 | 17:00:04
———————————————
Ég sé ekki að þetta sé framför. Það að menn reki netkerfi fyrir eitthvað „artýfartý“ sé ég ekki að þurfi að afskrifa þá sjálfkrafa. Eða þá að það sé gæðastimpill að þeir reki netkerfi hjá stórfyrirtækjum.
Ég er ekki sammála fyrri fullyrðingu Hildigunnar; maður þarf að læra á og kunna á Makka. Seinni hlutinn er hins vegar nokkuð réttur. Þó þú kunnir ekki á Makkann eru mun minni líkur á að maður fari kerfinu sínu að voða en ef maður notar Windows.
Bílabúð Benna kom kannski Porsche 911 upp á einhvern jökul en það breytir því ekki að flestir eru betur settir að reyna við þannig ferð á breyttum jeppa.
Fyrir utan að mig grunar að það hafi verið jeppi með spili í för þegar umræddur sportbíll fór í fjallaferðina sína. Við getum kallað hann vírusvörnina í því ákveðna tilfelli.
Posted by: Kalli | 2.02.2007 | 18:05:48
———————————————
já, auðvitað er betra að kunna á Makkann til að keyra hann, en það ER hægt að vinna með hann án þess að kunna mikið. Ég myndi ekki vilja kunna ekkert.
Posted by: hildigunnur | 2.02.2007 | 18:39:49
———————————————
Til að eyða misskilningi þá vil ég benda á það að ég kann ágætlega á Microsoft Windows. Meira að segja get ég sett upp bæði NT Domain og Active Directory og skrifað pólisíur og hannað schema. Þetta er bara svo ljótt frá grunni og óhentugt á alla vegu miðað við allt annað sem til er.
Öryggismálin eru kafli út af fyrir sig og uppspretta óendanlegrar kátínu.
Posted by: Elías | 3.02.2007 | 10:39:40
———————————————
Hugz, reyndu að segja kerfisstjórum Samskipa hvað það er þægilegt og gott að reka Windows netkerfi. Myndir ekki fá mjög jákvæð viðbrögð.
Posted by: hildigunnur | 3.02.2007 | 12:28:23
———————————————
og svo munurinn á force quit, ef eitthvað forrit er að bögga mann er svo fáránlega lítið mál að skjóta það niður í OSX. Reyndu að drepa frosinn Internet Exploder 7,0 – tekur margar mínútur. Þó maður viti hvað á að gera.
Posted by: hildigunnur | 4.02.2007 | 1:31:54