Síðustu 15 árin hefur mitt háværasta harmarunk tengst hjúskaparstöðu minni. Ég hef eignast fleiri en einn sálufélaga og sofið hjá fleiri mönnum en ég myndi viðurkenna fyrir móður minni en þetta tvennt hefur ekki farið saman og er það skítt. Ég naut þess að vera á lausu í 5-6 mánuði eftir skilnaðinn við Vesturfarann, var nokkurnveginn sátt við það í kannski svona ár til viðbótar en síðan hef ég lengst af verið að vonast til að finna sálufélaga sem ég get líka sofið hjá.
Samt.
-Þegar allt kemur til alls er engin minna kunningjakvenna svo vel gift að ég vildi vera í hennar sporum.
Ég þekki nokkar konur sem eiga menn sem eru fullkomnir að öðru leyti en því að mér þykja þeir hvorki kynþokkafullir né skemmtilegir. Satt að segja þekki ég ekki nema tvær konur sem eiga menn eða kærasta sem ég væri til í að prófa að sofa hjá ef þeir væru á lausu. Og það er nú líkast til bara af því að ég þekki þá ekki nógu vel til að sjá í gegnum sætuna. Reyndar kannast ég svosem líka við konur hverra sambýlingum ég sængaði hjá áður en þær sjálfar duttu í kolakassann en ég er til allrar lukku búin að venja mig af þeim fávitagangi að brenna mig á sama grautnum oftar en einu sinni.
Satt að segja er ég með hnút í maganum yfir þessu stefnumóti sem ég er búin að bóka annað kvöld.
Kannski ætti ég að bíða með að hitta kappann þar til ég kemst yfir þá skoðun að karlmennska sé fæðingargalli?
Á hinn bóginn þá var ég frekar jákvæð gagnvart tegundinni síðast þegar ég reyndi og það fór nú eins og það fór.
Ég efast. Ekki um neitt sérstakt, bara yfirhöfuð um hvert einasta skref sem ég tek eða tek ekki gagnvart þessari andstyggilegu dýrategund sem mig langar svo mikið að sofa hjá. Og vakna hjá.
———————————————
synd að segja að þú farir á þetta deit með of miklar væntingar…
Posted by: baun | 23.01.2007 | 10:03:09
———————————————
Eru menn vinkvenna þinna ekki miklir blogglesendur ?
Posted by: Hugz | 25.01.2007 | 15:49:25
———————————————
Ég bara veit það ekki. Ég á töluvert stóran hóp laumulesenda en hef nú ekki lagt mig eftir því að komast að því hverjir þeir eru.
Hitt veit ég að flestir eiginmanna vinkvenna minna munu ranglega ímynda sér að þeir séu ekki einasta annar þessarra tveggja sem ég gæti hugsanlega haft mig í að sofa hjá ef það væri í boði, heldur telja líka næsta víst að þeir komi gjarnan við sögu í mínum villtustu fantasíum. Fáir karlar hafa raunhæfar hugmyndir um eigin kynþokka en trúa auk þess að kona sem er bæði gröð og örvæntingarfull (þ.e. einhleyp) hljóti að beina örvæntingu sinni að hverjum þeim dindli sem á vegi hennar verður, jafnvel þótt dindilviðhengið sé grunnhyggið, sjálflægt eða yfirborðslegt.
Posted by: Eva | 25.01.2007 | 22:30:50