Ég hef aldrei skilið hvernig fólk sem eyðir 2 klst í mátunarklefa áður en það fjárfestir í einum gallabuxum, getur hugsað sér að kaupa íbúð eftir 5 mínútna skoðun.
Ég er búin að skoða c.a. milljón íbúðir undarfarna daga og er loksins búin að finna eina sem myndi henta mér fullkomlega. Ætla að taka fagmann með mér til að kíkja betur á þá þætti sem ég hef ekki nógu mikið vit á sjálf og ef hann leggur blessun sína yfir dæmið mun ég ákalla Mammon mér til fulltingis og græja greiðslumat með hraði. Reyndar gæti farið svo að við verðum á vergangi í sumar. Það er þó engin frágangssök því ef ég þekki syni mína rétt verða þeir hvort sem einhversstaðar uppi á fjöllum, úti í sveit eða annarsstaðar þar sem þeir geta „andað“ og mér er engin vorkunn að setja búslóðina í geymslu og nýta mér aðstöðuna á Vesturgötunni í nokkra mánuði. Allavega er það vel þess virði ef ég fæ íbúð sem hentar mér til frambúðar. Vona bara að ég þurfi ekki að selja verðbréfin mín. Það eru ekki mörg ár þar til þarf að skipta um klæðningu og þá gæti komið sér vel að eiga sjóð að sækja í.
Mér hrís hugur við flutningunum en hlakka þeim mun meira til að losna við aksturinn í morgungeðveikinni.
—————————————–
Ég fann það eins og skot hvar ég vildi búa þegar ég fór að leita að íbúð síðasta sumar. Skoðaði samt nokkrar í viðbót af skyldurækni. Hef aldrei séð eftir kaupunum. Upplifði það sama þegar ég keypti fyrri íbúð, fann strax hvar mér gæti liðið vel. 🙂
Posted by: Anonymous | 29.03.2007 | 11:41:07