Hver er þessi dularfulla stærðargráða?

Oft er viðeigandi að nota formlegt málfar fremur en hversdagslegt. Hins vegar er það alrangt sem sem sumir virðast álíta, að formlegt málfar eigi helst að vera uppskrúfað, jafnvel nánast óskiljanlegt. Dæmi um uppskrúfað og illskiljanlegt orð sem gjarnan er notað í fjölmiðlum er orðskrípið stærðargráða. Veit einhver hvernig stærðargráður eru reiknaðar? Hversu stórt er hús af þessari stærðargráðu eða byggðarlag af þessari stærðargráðu? Er stærðargráðan alltaf „þessi“ eða getur skóli verið af stærðargráðunni 480 eða bygging verið af stærðargráðunni 25? Mér skilst að stærðargráða sé til sem stærðfræðihugtak en ég efast um að þeir sem nota þetta orð í daglegu tali og í fjölmiðlum hafi nokkra hugmynd um hvað stærðargráður eru eða til hvers þær eru notaðar.

Þegar við komum fram opinberlega skiptir meira máli að fólk skilji það sem við segjum en að það átti sig á því hvað við höfum mikinn orðaforða. Ef formlegt málfar er okkur óeiginlegt, tölum þá frekar venjulega íslensku.