Hörður ber enga ábyrgð á óeirðunum

Fanganum sleppt

Ég sé að nokkrir bloggarar halda því fram að Hörður Torfason beri ábyrgð á því sem gerðist við lögreglustöðina á Hverfisgötu í gær. Það er auðvitað fráleitt. Hörður Torfason hefur sterka réttlætiskennd og honum ofbýður, eins og svo mörgum öðrum, þegar einn af virkustu aktivistum landsins er fyrirvaralaust handtekinn og settur inn til afplánunuar refsingar, daginn fyrir stóran mótmælafund. Það var ekki snjallt hjá lögreglunni að standa þannig að málum og velkist enginn heilvita maður í vafa um að tilgangurinn var sá að halda honum frá mótmælunum og senda öðrum mótmælendum skilaboð um að halda sig á mottunni.

Neinei, Hörður ber ekki ábyrgð á mótmælunum við Hlemm. Hörður er þekktur fyrir að boða friðsamlegar aðgerðir og hann hvatti sannarlega engan til að brjóta sér leið inn á lögreglustöð. Hann hvatti fólk til að hrópa ‘látið hann lausan’ en það var eina aðkoma Harðar að þessum fundi.

One thought on “Hörður ber enga ábyrgð á óeirðunum

  1. ————————————–

    Ég er nú alveg sammála þér – Hörður er friðsemdin uppmáluð og myndi aldrei hvetja fólk til að brjóta af sér – en sannarlega til að mótmæla í friðsemd og á löglegan mátann.

    En, það eru alltaf einhverjir sem brjóta af sér og skemma fyrir annars góðum mótmælum og ræna þar með athyglinni frá því sem verið er að mótmæla í raun og veru! Það eru alltaf einhverjir sem fara yfir strikið og gera eitthvað sem sannarlega ætti ekki að gera á svona fundum! Alltaf einhver sem brýtur lög! Alltaf einhver eins og Bónusfánagaurinn … því miður!

    Annars er ég bara góður – hafðu ljúfan Sunnudaginn!

    Tiger, 23.11.2008 kl. 02:58

    ——————————————

    Klisjan um að þeir mótmælendur sem ganga lengra en að tala og veifa skilti, skemmi fyrir málstaðnum á ekki við nein rök að styðjast. Eða geturðu sýnt mér einhverja rannsókn sem rennir stoðum undir þá hugmynd?

    Eva Hauksdóttir, 23.11.2008 kl. 03:16

     ——————————————

    Það er sannarlega engin klisja að þeir sem fara yfir strikið skemmi fyrir mótmælum. Það þarf ekki annað en að horfa til baka á „Bónusfánafundinn“ .. þar situr ekkert eftir nema bara sá verknaður og allar fréttir þann daginn fjölluðu um Bónusfánagaurinn og þennan verknað að klifra upp með fánann… það voru gersamlega engar fréttir um fundinn sjálfan og það situr ekkert eftir hann – nema sá sem fór yfir strikið. Það var ekkert fjallað um ræðuhöld eða um hvað var sagt á þeim fundi, ekkert sýnt nema í mýflugumynd – en aðalathygli dagsins voru þeir sem fóru yfir strikið – og skemmdu þar með fyrir heildinni! En, þetta er mín skoðun – sem þarf svo sem ekkert að vera heilög – en eins og í flestum málun þá er skiptar skoðanir, það sem sumir sjá sem lögbrot og eyðileggingu sjá aðrir sem glæsilegt framtak og upphefja lögbrjótinn sem hetju – en það er einmitt málið – að „hetjan“ fær alla athyglina en raunverulegur málstaður og þeir sem tala á fundunum – fá enga athygli.

    Ég hefði miklu frekar viljað að fundurinn og þeir sem voru á mælendaskrá þar – hefðu fengið alla þá fjölmiðlaathygli sem yfirleitt fer í eggjakast, skyrkast eða ólæti þar sem spýtum og höggum er leyft að dynja á húsum … eftir sitja heitir fundarmenn og konur sem fá litla sem enga athygli.

    Tiger, 23.11.2008 kl. 12:46

    ——————————————

    Mættu færri á fundinn sem var haldinn viku síðar? Nei, þvert á móti voru þeir fleiri. Jókst stuðningur við ríkisstjórnina, Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið? Ekkert bendir til þess. Fundurinn fékk sannarlega athygli þótt hugsanlega hafi bónussfáninn skyggt á einhvern ræðumann. Kannski bara af því að sú aðgerð var flottari og eftirtektarverðari en yfirlýsingar um að nú sé nóg komið.

    Eva Hauksdóttir, 23.11.2008 kl. 14:17

    ——————————————

    Tja… þó mér sé geð um það þvert ætla ég að vitna í kommúnista og segja:

    ¡Venceremos!

    J. Einar Valur Bjarnason Maack , 23.11.2008 kl. 14:51

    ——————————————

    Það skemmir engan málstað í sjálfu sér að einhverjir beiti röngum aðferðum í nafni hans. Málstaðurinn er ekki háður taktík.

    Það getur spillt mótmælum ef senunni er stolið og góð mótmæli hverfa í skuggann af slæmum uppákomum. Bónusfáninn var ekki slík uppákoma. Hann var jákvætt krydd í góð mótmæli og stal senunni ekki í neinum neikvæðum skilningi orðsins. Dró hvorki úr athyglinni sem mótmælin sjálf fengu, né truflaði þau. Þvert á móti var hann hugvitssamlegur, djarfur, fyndinn, sannur og vinsæll. Hann bætti því mótmælin.

    Vésteinn Valgarðsson, 24.11.2008 kl. 06:24

Lokað er á athugasemdir.