Jæja. Þá er Pysjan væntanlega kominn til Baunalands. Fór í loftið kl 7 en var byrjaður að reka á eftir mér kl 3 í nótt þótt allt væri tilbúið til brottfarar og bíllinn fullur af bensíni rétt fyrir utan. Hann ætlaði sko ekki að standa í röð í 2 tíma. Ég hef reyndar aldrei lent í óþolandi langri biðröð úti á Keflavíkurflugvelli en hann var búinn að klína þráhyggjunni á i-pod sem hann ætlaði að kaupa í fríhöfninni svo það var engu líkara en að við værum að flýja bæði snjóflóð og Gestapo.
Ég var ekki besta mamma í heimi fyrri hluta nætur. Hann hafði víst ætlað að taka svo til allar veraldlegar eigur sínar með sér og hafði reiknað fastlega með að ég kæmi bílskúrsfylli af gersemum hans snyrtilega fyrir á búðargólfinu, eftir að hafa sett allt mitt eigið dót í geymslu. Ég held að hann ætli samt að fyrirgefa mér að hafa ekki fengið að taka klifurbúnaðinn og fjallgönguskóna með sér.
Ég náði að leggja mig í hálftíma á milli þess sem geðbólgan yfir geymdum djásnum og brottfararfýsin reið húsum á Vesturgötunni. Rumskaði og heyrði í svefnrofunum að hann var að tuldra einhverjar tölur fyrir munni sér. Það virtist vera reikningsdæmi og gott ef ekki hann nefndi ekki dagsetningar líka. Mér fannst líklegast að hann væri að reikna íslenskar krónur yfir í danskar og gera fjárhagsáætlun og ætlaði að halda áfram að sofa en heyrði þá píp í símanum hans. Ég hélt að hann væri að reyna að hringja í einhvern og reis upp til að gá hvort hann væri orðinn vitlaus. En nei, hann var nú ekki alveg svo galinn að vera að hringja í fólk um miðja nótt. Hann var bara að reikna út hversu mörg hár hundur missir að meðaltali á mánuði ef hann er með hárlos 361 dag á ári, og var að slá dæmið inn í reiknivélina á símanum. Honum fannst víst rétt að hafa þetta á hreinu áður en hann yfirgæfi klakann.
—————————————
og svarið er?
bíð spennt..
Posted by: baun | 5.06.2007 | 16:55:34
—————————————
Ég truflaði hann víst í þessum útreikningum með því að væna um þá brjálsemi að hringja í Pétur og Pál um miðjar nætur. Svarið er því enn á huldu.
Posted by: Eva | 5.06.2007 | 17:45:46
—————————————
ég held samt að þú hafir reiknað nokkuð rétt að fá hann til að skilja fjallgöngubúnaðinn eftir.
Posted by: inga hanna | 5.06.2007 | 22:09:43
—————————————
getur huggað þig við eitt, Eva:
hversu slæm getur vistin verið í Baunalandi?
Posted by: baun | 5.06.2007 | 22:20:16
—————————————
Ég á ekki von á öðru en að minn piltur blómstri í Baunalandi. Hann hefur margsinnis sofið vært með heilu verkfærasettin í rúminu hjá sér svo ein lítil baun ætti ekki að valda honum marblettum. Hann er í góðu yfirlæti hjá afa sínum og ömmu eins og er en fer svo til systur minnar sjúkrunarkonunnar eftir nokkra daga.
Posted by: Eva | 5.06.2007 | 22:32:31