Allt í heilanum

Ég las einusinni grein í Lifandi vísindum þar sem kemur fram að lundarfar sé líkamlegt. Einhver mekanismi í heilanum á að vera ástæða þess að sumir eru glaðlyndari en aðrir án þess að ytri aðstæður skýri það. Gott ef það voru ekki líka Lifandi vísindi sem birtu grein um að tilhneiging til framhjáhalds væri genatísk.

Eru vísindin smátt og smátt að svipta manninn allri ábyrgð á sjálfum sér og hegðun sinni? Er það þá rétt, gott og æskilegt? Er kannski bara gott mál ef hægt er að rækta fólk með heppilega eiginleika? Framleiða glaðlynt, bjartsýnt og heiðarlegt fólk sem heldur tryggð við maka sinn? Af hverju ekki? Einhverntíma kemur að því að við getum stjórnað þessu án þess að eyða fóstrum.

Við viljum útrýma sjúkdómum og meðfæddri fötlun. Af hverju ekki alveg eins skaðlegum karaktereinkennum? Af hverju finnst mér það svona miklu óhugnanlegra? Það er auðvitað möguleikinn á því að framleiða hlýðið fólk sem auðvelt er að þrælka og stjórna sem skelfir mig en ekki bara það. Mér finnst tilhugsunin ógeðfelld í eðli sínu.