Afsakið mig meðan ég æli

Kærleika sýnir maður í verki, af hjartans dýpstu rótum, fólki sem manni þykir vænt um, fólk sem ekki hefur unnið til annars, fólki sem þarfnast þess, fólki sem af hendingu verður á vegi manns, fólki í sama húsi og fólki í fjarlægum heimshlutum.Við þurfum ekki að fara í gönguferð kringum tjörnina til að sýna hvert öðru kærleika. Enda er þetta uppátæki ekkert annað en væmin og hallærisleg tilraun til að telja okkur trú um að friður skuli ríkja í samfélagi þar sem enginn grundvöllur er fyrir friði. Þeim sem reyna að kúga okkur og þagga niður í okkur sýnum við engan kærleika. Við getum sýnt þeim miskunn, við getum haft samúð með öllu sem lifir, við getum sýnt þeim þá virðingu sem allar manneskjur eiga rétt á, en kærleika nei takk.

Skilaboðin til yfirvaldsins þessa dagana ættu ekki að vera: við elskum ykkur, heldur ‘drullist til að uppræta spillingu og valdníðslu ef þið viljið ávinna ykkur kærleika, virðingu og frið.’

Þau gætu byrjað með því að upplýsa okkur almennilega um afsalið á fjárræði okkar.

mbl.is Kærleiksganga á Austurvelli

One thought on “Afsakið mig meðan ég æli

  1. —————————————-

    Já, þetta fór öfugt ofan í mig.

    Ég er á því að það sé langt í að ég þurfi að fara að dreifa kærleika um borg og bý.

    Andskoti langt í það.

    Jenný Anna Baldursdóttir, 14.2.2009 kl. 12:00

    —————————————-

    Elskurnar…..

    Elín (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 12:04

    —————————————-

    Ég hef nóg af fólki og dýrum í kringum mig sem sýni kærleika. Ég þarf ekki að fá mér labbitúr kringum tjörnina til þess.

    Finnur Bárðarson, 14.2.2009 kl. 12:14

    —————————————-

    Hvað er í gangi !!! Aula – hrollur !!!!!!!!!!!!!

    Benedikta E, 14.2.2009 kl. 12:42

    —————————————-

    Það sem er í gangi er að það er búið að taka af okkur fjárræðið, sjálfstæði okkar er stefnt í bráðan voða (og engu líkara en að fólk átti sig bara ekki á að það merkir einfaldlega að við missum ráðstöfunarrétt yfir auðlindum okkar), enn er upplýsingum haldið leyndum fyrir þjóðinni og einhverjir vesalings aulabárðar eru nógu meðvirkir til að svara þessu öllu saman með KÆRLEIKSGÖNGU!

    Eva Hauksdóttir, 14.2.2009 kl. 12:49

    —————————————-

    Spurning hvort ekki hefði átt að fleyta hjörtum og dúlleríi á tjörninni til að kóróna þetta, ristastórt sætt hjarta yfir ráðhúsinu með áletruninni ,,you are my valentine“…

    Gísli Friðrik Ágústsson (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 15:12

    —————————————-

    Mér líst betur á þína hugmynd um berrassaða gönguferð kringum Tjörnina.

    Slíkur atburður yrði meira í tengslum við raunveruleikann.

    María Sigmundsdóttir (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 15:53

    —————————————-

    Æjá, aulahrollur. Dálítið eins og „eager to please“ húsmóðir sem reynir að slétta yfirborðið ef minnsti grunur leikur á togstreitu innan fjölskyldunnar.

    Hulda H. (IP-tala skráð) 14.2.2009 kl. 19:42

Lokað er á athugasemdir.